Framleiðsluvandi AstraZeneca tefur dreifingu

AstraZeneca hefur þróað bóluefni við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla.
AstraZeneca hefur þróað bóluefni við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla. AFP

Lyfjaframleiðandinn AstraZeneca, sem þróað hefur bóluefni við kórónuveirunni með Oxford-háskóla, segist munu dreifa færri skömmtum á fyrsta ársfjórðungi en upphaflega var ráðgert vegna framleiðsluvanda. Evrópska lyfjastofnunin hefur ekki enn gefið bóluefni AstraZeneca markaðsleyfi en stefnt er að því að gera það 29. janúar. Bóluefnið hefur þó verið tekið í notkun í Bretlandi.

Stefan De Keersmaecker, talsmaður heilbrigðismála hjá framkvæmdastjórn ESB, segir að AstraZeneca hafi staðfest breytta afhendingaráætlun á fundi í gær og að framkvæmdastjórnin vinni nú að því að „afla frekari upplýsinga“.

Stella Kyriakides, ráðherra framkvæmdastjórnar ESB um lyfja- og matvælaöryggi, segir að bæði framkvæmdastjórnin og fulltrúar aðildarríkja ESB hafi látið í ljós mikla óánægju með stöðuna.

Á vef Ríkisútvarpsins segir að Reuter hafi eftir ónafngreindum embættismanni innan ESB að fjöldi skammta frá AstraZeneca geti dregist saman um 60% en fyrirtækið stefndi að því að dreifa um 80 milljón skömmtum til Evrópusambandsríkja fyrir lok mars. Nú er þó útlit fyrir að þeir verði ekki fleiri en 31 milljón.

Ísland fær sem fyrr bóluefni AstraZeneca fyrir tilstilli samninga sem Evrópusambandið hefur gert við bóluefnaframleiðendur en ekki er hægt að slá því föstu hvaða áhrif framleiðsluvandi AstraZeneca muni hafa á afhendingu bóluefnis hingað til lands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert