Mótmæltu í 50 gráða frosti

Mótmælin í Rússlandi í dag voru óvenju víðfeðm í þessu stærsta landi heims, en alls komu mótmælendur saman á götum úti í fleiri en hundrað borgum.

Fyrri stór mótmæli, svo sem árin 2012 og 2019, áttu sér að mestu stað í höfuðborginni Moskvu.

Meira að segja í borginni Jakútsk, þar sem um 50 gráða frost mældist í dag, komu vel klæddir mótmælendur sér fyrir úti á götu og andmæltu ríkisstjórninni og meðferð hennar á pólitíska andstæðingnum Alexei Navalní.

Þess má geta að Jakútsk situr á 62. breiddargráðu, lengst inni á meginlandi austurhluta Rússlands, en Reykjavík til samanburðar á þeirri sextugustu og fjórðu.

Fleiri en 2.500 teknir höndum

Tugir þúsunda mótmæltu einnig í Síberíu og Úralfjöllum og borgum á borð við Kabarovsk, Novosibirsk og Jekaterínburg, þrátt fyrir mikið frost og viðvaranir lögreglu um að tekið yrði hart á mótmælendum.

Sú varð einmitt raunin en alls voru fleiri en 2.500 mótmælendur teknir höndum vítt og breitt um landið, en blóðugust voru átök mótmælenda og lögreglu í Moskvuborg.

Nokkr­ir nán­ustu banda­manna Navalnís hafa verið hand­tekn­ir, þar á meðal talskona hans Kira Yar­mysh. Eiginkona Navalnís, Yulia Navalní, er einnig í haldi lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert