Óhugnanlegt atvik sem varð í Tacoma í Washington í gærkvöldi er nú til rannsóknar hjá lögreglunni en þar sést hvar lögreglubíl er ekið á nokkrum hraða inn í mannþröng. Í myndbandi af atvikinu sést einn lenda undir bílnum og var viðkomandi fluttur á spítala.
Hópur fólks hafði umkringt bílinn en lögreglan var kölluð á vettvang þar sem mannfjöldi var kominn saman að horfa á spyrnukeppni, að því er fram kemur á vef BBC. Um hundrað bílar stífluðu umferð á gatnamótunum.
Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Tacoma segir að lögreglumaðurinn hafi reynt að bakka og koma sér frá múgnum án árangurs. Þá hafi hann óttast um líf sitt þar sem hópur fólks hafi gert atlögu að bílnum.