Svíar loka fyrir ferðir frá Noregi

Stefan Löfven, forsætisráðherra Noregs.
Stefan Löfven, forsætisráðherra Noregs. AFP

Stjórnvöld í Svíþjóð munu loka á ferðir frá Noregi frá og með morgundeginum, mánudegi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sænsku lögreglunni.

Bætist Noregur þá á lista þar sem þegar eru fyrir Bretland og Danmörk.

Ákvörðunin kemur í kjölfar fregna af útbreiðslu svokallaðs „bresks afbrigðis“ kórónuveirunnar í Noregi en stjórnvöld þar í landi kynntu hertar samkomutakmarkanir í höfuðborginni Ósló og nágrenni í gær.

Fyrir áramót höfðu sænsk stjórnvöld lokað á ferðir frá Danmörku og Bretlandi af sömu ástæðu, en það voru fyrstu takmarkanir sem settar voru á landamærum Svíþjóðar frá því kórónuveirufaraldurinn hófst. Ferðabannið til landanna þriggja gildir að óbreyttu til 14. febrúar.

Sænskir ríkisborgarar og íbúar Svíþjóðar eru undanþegnir banninu, auk þess sem undanþágur eru veittar fyrir fraktflutninga, sjúkraflutninga og aðrar sérstakar aðstæður. 

Sendiráð Íslands í Stokkhólmi vekur athygli á banninu á Facebook. Er þar bent á að bannið gildi einnig um þá sem millilenda í löndunum þremur, Danmörku, Noregi eða Bretlandi. Er Íslendingum því ráðlagt að millilenda ekki í þeim löndum á ferðalagi sínu til Svíþjóðar nema þeir séu þess fullvissir að þeir falli undir fyrrnefndar undanþágur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert