Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, fordæmdi í dag ofbeldi eftir mótmæli gegn hertum sóttvarnaaðgerðum í nokkrum borgum landsins um helgina. Útgöngubann tók gildi vegna fjölda kórónuveirusmita.
Alls voru 250 mótmælendur handteknir en óeirðalögregla beitti táragasi og öflugum vatnsbyssum til að dreifa fólki sem kom saman til mótmæla.
Sumir þeirra hentu flugeldum í átt að lögreglu, brutu rúður og brutust inn í verslanir.
„Þetta er óviðunandi,“ sagði Rutte við hollenska fréttamenn í dag.
„Það er ekkert hægt að tengja þetta mótmælum, þetta er einfaldlega ofbeldi og við skoðum málið þannig,“ bætti Rutte við.
John Jorritsma, borgarstjóri Eindhoven, líkti ástandinu við borgarastyrjöld og óskaði eftir aðstoð hersins.
Útgöngubann er í gildi frá 21:00 til 04:30 en frá upphafi faraldursins hafa 944 þúsund greinst með veiruna í Hollandi og 13.646 látist.