Norsk stjórnvöld féllu í gær frá þeim lið nýrra strangra lokunarreglna í tíu norskum sveitarfélögum að loka vínbúðum Vinmonopolet, áfengiseinkasölu norska ríkisins, eftir að bæjarstjórar í nágrannasveitarfélögum ráku upp ramakvein en langar biðraðir mynduðust við vínbúðir þar þegar Bent Høie heilbrigðisráðherra fyrirskipaði lokun búðanna í Ósló og níu nágrannasveitarfélögum á laugardaginn.
Klukkan 10 í morgun að norskum tíma opnuðu því 45 vínbúðir sem ætlað hafði verið að hafa dyr sínar lokaðar fram að mánaðamótum eftir að heilbrigðisráðherra staðfesti í gærkvöldi að bannið væri fallið úr gildi.
„Við teljum að með því að hafa opið leggjum við okkar lóð á vogarskál samstöðu í þjóðfélaginu,“ segir Elisabeth Hunter, forstjóri Vinmonopolet, við norska ríkisútvarpið NRK og bendir á að 477.000 lítrar af áfengi hafi selst í þeim vínbúðum, sem opnar voru í landinu á laugardaginn, sem sé 73 prósenta söluaukning frá því laugardaginn viku áður og má þá gera því skóna að margur höfuðborgarbúinn hafi hamstrað áfengi vegna fyrirsjáanlegrar þurrðar á lokunarsvæðinu.
„Öll okkar reynsla af til dæmis verkföllum starfsfólks vínbúðanna sýnir okkur að opnar áfengisverslanir stuðla að ró í samfélaginu,“ segir Hunter enn fremur og bætir því við að aðgangur að vínbúð í heimasveitarfélagi komi í veg fyrir að fólk ferðist yfir í nágrannabæi með tilheyrandi smithættu.
Frá miðnætti í gær bættust 15 ný sveitarfélög í hóp þeirra tíu sem frá hádegi á laugardag var gert að loka nær öllu nema matvöruverslunum, apótekum, bensínstöðvum og leik- og barnaskólum til mánaðamóta og ná nýju reglurnar því nú til búsetusvæðis rúmlega einnar og hálfrar milljónar Norðmanna en ráðstafanirnar eru gerðar vegna nýrra tilfella hins svokallaða „breska afbrigðis“ kórónuveirunnar, B.1.1.7 sem svo kallast.
Sveitarfélögin sem nú bætast í hópinn eru Asker,Aurskog-Høland, Bærum, Drammen, Horten, Lier, Lillestrøm, Lunner, Lørenskog, Marker, Nittedal, Rakkestad, Rælingen, Råde og Skiptvet.