Fyrirtæki sem sérhæfir sig í gerð kosningavéla hefur stefnt Rudy Giuliani, lögmanni Donalds Trumps fyrrverandi Bandaríkjaforseta. Fyrirtækið sakar Giuliani um meiðyrði í kjölfar forsetakosninganna sem fram fóru í nóvember á síðasta ári.
Fyrirtækið, Dominion Voting Systems, fer fram á 1,3 milljarða bandaríkjadala í skaðabætur í málinu, sem jafngildir tæpum 170 milljörðum króna. Dominion segir að Giuliani og aðrir stuðningsmenn Trumps hafi skaðað orðspor fyrirtækisins með því að halda ítrekað fram að kosningavélarnar hefðu verið hluti af „umfangsmiklu kosningasvindli“. Þá segir Dominion að Giuliani og fleiri hafi skapað „Stóru lygina“ sem leiddi til þess að milljónir manna trúðu því að kosningunum hefði „verið stolið“.
Giuliani hefur ekki tjáð sig um stefnuna. Í henni kemur meðal annars fram að lögmaðurinn hafi tekið við 20 þúsund dollara greiðslum daglega fyrir að halda því fram yfir margra vikna tímabil að kosningasvindl hafi leitt til sigurs Joes Bidens Bandaríkjaforseta.
„Jafnvel eftir að múgur, knúinn áfram af blekkingum Giulianis og bandamanna hans, hafði brotist inn í þinghús Bandaríkjaþings tók Giuliani enga ábyrgð á afleiðingum orða sinna og endurtók Stóru lygina,“ segir í stefnunni.