Fulltrúadeildin hefur afhent öldungadeild Bandaríkjaþings ákæru á hendur Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, með formlegum hætti. Það var gert í gærkvöldi en Trump er fyrsti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sem réttað er yfir í öldungadeildinni.
Þetta er annað skiptið á rúmu ári sem níu fulltrúar fulltrúadeildarinnar færa öldungadeildinni ákæru á hendur Trump.
Réttarhöldin yfir Trump hefjast í annarri viku febrúar en leiðtogar demókrata og repúblikana náðu samkomulagi um seinkun svo öldungadeildin gæti fyrst lokið öðrum mikilvægum málum sem fyrir henni liggja, svo sem staðfestingu á skipan ráðherra ríkisstjórnar Joes Bidens, að sögn Chucks Schumers, leiðtoga meirihluta deildarinnar.