Kunnur stuðningsmaður Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem studdi fullyrðingar hans um kosningasvik, hefur verið bannaður til frambúðar á Twitter.
Samfélagsmiðillinn greindi frá þessu í gærkvöldi og er þetta er nýjasta bannið sem hann leggur á frægt hægrifólk og stuðningsmenn samsæriskenninga.
Ljósmyndir fyrr í þessum mánuði af Mike Lindell, forstjóra koddaframleiðandans My Pillow, virtust sýna hinn 59 ára kaupsýslumann halda á skjölum inn í Hvíta húsið þar sem því var haldið fram að Trump gæti beitt herlögum eftir staðhæfingar um kosningasvindl án nokkurra sannana.
Lindell, sem er þekktur sem „My Pillow Guy“ eða „Koddagaurinn“, hefur einnig sýnt áhuga á ferli í stjórnmálum og íhugar núna að bjóða sig fram sem ríkisstjóri Minnesota, að sögn Politico.
Talsmaður Twitter sagði að Lindell hefði verið settur í bann eftir „víðtæk brot á stefnu okkar um ráðvendni“. Ekki er ljóst hvaða tíst urðu til þess að hann var bannaður.
Með þessari stefnu sinni vill Twitter ráðast gegn útbreiðslu falskra upplýsinga á samfélagsmiðlinum, sérstaklega í kringum kosningar.
Bann Lindells er það nýjasta í álíka bönnum eftir að hópur stuðningsmanna Trumps réðst inn í þinghús Bandaríkjanna 6. janúar. Þar reyndu vopnaðir hægriöfgasinnar að snúa við kosningaúrslitunum frá því í nóvember.
Trump var bannaður á Twitter 8. janúar ásamt tugum þúsunda manna sem aðhyllast samsæriskenninguna Qanon þar sem því er haldið fram að forsetinn fyrrverandi hafi verið að berjast gegn alþjóðlegum hópi djöfladýrkenda og barnaníðinga.
Marjorie Taylor Greene, nýkjörinn þingmaður repúblikana, er sú nýjasta til að fá 12 klukkustunda bann á Twitter. Hún er einnig stuðningsmaður Trumps og hefur kynnt málstað Qanon. Hún tísti um meint kosningasvik í ríki sínu Georgíu sem leiddi til þess að hún var bönnuð í hálfan sólarhring.