Óeirðir og væntingar um hjarðónæmi

Óeirðir og mótmæli vegna sóttvarnareglna brutust út víðar en í Hollandi því í Ísrael kom til óeirða í hverfum þar sem heittrúaðir gyðingar búa í úthverfum Tel Aviv, Jerúsalem og víðar. Í Ástralíu hefur einnig verið mótmælt í dag.

Líkt og fjallað var um á mbl.is í gærkvöldi kom til óeirða í helstu borgum Hollands í gær og í Rotterdam voru rúður brotnar og ýmsar skemmdir unnar. Lögreglan svaraði með því að sprauta vatni á mannfjöldann. Sóttvarnareglur voru hertar enn frekar í Hollandi um helgina. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir að innan fárra mánaða verði hægt að hefja fjöldabólusetningar í Bandaríkjunum og að hann telji að í sumar verði orðið stutt í að þar myndist hjarðónæmi. 

Heilbrigðisyfirvöld í Minnesota greindu frá því í gær að þar hefði greinst smit af afbrigði sem kennt er við Brasilíu þar sem það greindist fyrst þar. Ekki er talið að það líði langur tími þangað til yfir 100 milljónir jarðarbúa hafi greinst með Covid-19.

Sífellt fleiri ríki leita nú til Rússlands um bóluefni og í gær samþykktu yfirvöld í Mexíkó að panta 24 milljónir skammta af Spútnik V-bóluefninu. Framleiðendur þess segja að virkni þess sé meira en 90% en bóluefnið var sett á markað löngu áður en klínískum rannsóknum lauk og það hefur ekki enn verið samþykkt af heilbrigðisyfirvöldum í Mexíkó. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varar við því að bilið á milli ríkra og fátækra ríkja sé sífellt að aukast þegar kemur að kaupum á bóluefni. Þetta geti haft skelfilegar afleiðingar í för með sér fyrir hagkerfi heimsins. Ríku þjóðirnar eru að bólusetja á fullu á meðan fátækustu ríki heims horfa á og bíða, segir Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO.

WHO þarf á 26 milljörðum bandaríkjadala að halda í bólusetningaráætlun stofnunarinnar. Hvatt er til þess að hraða þróun og framleiðslu bóluefna á sama tíma og jafnræðis sé gætt.

Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) hefur Covid-19 haft gríðarleg áhrif á vinnumarkað heimsins og jafngildir það að 255 milljónir einstaklinga í fullu starfi hafi misst vinnuna. Það er fjórum sinnum sá fjöldi sem missti vinnuna árið 2009 í kjölfar heimskreppunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert