Selja skammta ESB ekki til annarra landa

AstraZeneca getur ekki afhent nema hluta af þeim skömmtum sem …
AstraZeneca getur ekki afhent nema hluta af þeim skömmtum sem fyrsta afhendingaráætlun gerði ráð fyrir. AFP

Pascal Soriot, forstjóri lyfjafyrirtækisins AstraZeneca, þvertekur fyrir þær sögusagnir að fyrirtækið stundi það að selja skammta af bóluefni, sem eyrnamerktir eru Evrópusambandinu, til annarra landa á hærra verði.

Sögusagnirnar spruttu upp í kjölfar þess að fyrirtækið gaf það út að ekki næðist að standa við fyrstu afhendingaráætlun bóluefnisins. Evrópusambandið brást illa við þeim fregnum og varaði við því að reglur varðandi útflutning á bóluefnum yrðu hertar.

Stella Kyriaki­des, yfirmaður heil­brigðismála í fram­kvæmda­stjórn ESB, sagði að sam­bandið muni grípa til allra þeirra aðgerða sem þörf er á til að verja borg­ara sína. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði að Evrópa hefði fjárfest í þróun bóluefna gegn kórónuveirunni og að framleiðendur verði að standa við skuldbindingar sínar um afhendingu.

Kennir Evrópusambandinu um tafir í framleiðslu

Sem fyrr segir Soriot, forstjóri AstraZeneca, að ekkert sé til í því að fyrirtækið sé að selja bóluefnaskammta til ríkja utan ESB á hærra verði. Þá segir hann að tafir á afhendingu bóluefnisins séu ekki fyrirtækinu að kenna, heldur Evrópusambandinu. Ástæðan sé sú að seinagangur sambandsins að semja við fyrirtækið um kaup á bóluefninu hafi tafið nauðsynlegar viðgerðir sem ráðast þurfti í til að framleiða á nægilegum hraða.

Fái bóluefni AstraZeneca markaðsleyfi frá Lyfjastofnun Evrópu fær Ísland 13.800 skammta í febrúar, en áður hafði verið gert ráð fyrir 75 þúsund skömmtum. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að ekki væri ástæða til að fara á límingunum vegna þess.

Í næsta mánuði er von á 43 þúsund skömmtum frá Pfizer, 10 þúsund frá Moderna auk sendingarinnar frá AstraZenica. Þeir skammtar muni duga til að bólusetja um 33.500 manns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert