Vara AstraZeneca við

Covishield, bóluefni AstraZeneca við Covid-19.
Covishield, bóluefni AstraZeneca við Covid-19. AFP

Evrópusambandið hefur varað við því að reglur varðandi útflutning á bóluefnum við kórónuveirunni verði hertar. Á sama tíma á sambandið í deilum við evrópska lyfjafyrirtækið AstraZeneca vegna ákvörðunar þess um að minnka þann skammt sem ríki, sem eiga aðild að samningi við félagið, í gegnum Lyfjastofnun Evrópu, fá. 

Stella Kyriakides sem fer með heilbrigðismál í framkvæmdastjórn ESB, segir að sambandið muni grípa til allra þeirra aðgerða sem þörf er á til að verja borgara sína.

Í síðustu viku upplýsti AstraZeneca ESB um að það myndi ekki ná að standa við markmið sín varðandi afhendingu bóluefnisins þar sem upp hefðu komið vandamál við framleiðsluna. ESB hefur verið gagnrýnt fyrir hversu hægt hefur gengið að fá bóluefni afhent en það kaupir bóluefni fyrir hönd allra ríkja sambandsins auk ríkja Evrópska efnahagssvæðisins (EES) þar á meðal Ísland.

Deilan gæti haft áhrif á bóluefnasendingar Pfizer-BioNTech til Bretlands sem er framleitt af lyfjafyrirtækjunum sem eru bandarískt og þýskt. Það er lyfjaverksmiðja Pfizer í Belgíu sem framleiðir bóluefni fyrir Bretland.

Frétt BBC

Breska ríkisstjórnin segist vera í nánu sambandi við framleiðendur bóluefnis, að því er segir í frétt BBC. Bóluefnabirgðir okkar og fyrirhugaðar afhendingar munu nægja til að sprauta alla fjóra forgangshópa okkar fyrir 15. febrúar hefur BBC eftir talskonu ríkisstjórnarinnar. 

Bólusetningaráætlanir einhverra ríkja ESB og EES hafa þegar tafist vegna þess að  Pfizer-BioNTech hefur þurft að hægja á framleiðslunni vegna vinnu við að auka framleiðslugetuna. Einhver ríki ESB hafa hótað fyrirtækjunum lögsókn vegna þessa.

Kyriakides skrifaði á Twitter að hún væri ósátt við niðurstöður viðræðna við AstraZeneca enda skorti fullnægjandi skýringar hjá lyfjafyrirtækinu. „Ríki ESB standa saman: framleiðendur bóluefnis hafa samfélags- og samningsbundnar skyldur sem þeir verða að standa við.“

Hún segir að Evrópusambandið hafi farið fram á ítarlegar skýringar og áætlun yfir fyrirhugaða afhendingu á bóluefni. Næsti fundurinn með AstraZeneca verði á morgun, miðvikudag.

Kyriakides segir að í framtíðinni verði öll fyrirtæki sem framleiða bóluefni við Covid-19 í ríkjum ESB skylduð til að upplýsa um allan útflutning til ríkja utan sambandsins. Þetta verði að gerast snemma í ferlinu. AstraZeneca hefur ekki tjáð sig um þessa ákvörðun.

Í síðustu viku greindi AstraZeneca frá því að vandamál sem hefðu komið upp við framleiðslu yrðu til þess að ríki sem eiga aðild að samningi Lyfjastofnunar Evrópu fengju minna magn af bóluefni en til stóð á fyrsta ársfjórðungi.

Flaska af bóluefni AstraZeneca við Covid-19.
Flaska af bóluefni AstraZeneca við Covid-19. AFP

AstraZeneca átti að afhenda um 80 milljónir skammta fyrir mars. Ekki hefur verið upplýst um hversu mikið minna magn verður afhent en samkvæmt upplýsingum Reuters-fréttastofunnar gæti það farið niður í 31 milljón skammta eða 60% samdrátt á fyrsta ársfjórðungi. 

Greint var frá því í gær að Ísland fær 13.800 skammta af bólu­efni lyfja­fyr­ir­tæk­is­ins AstraZeneca í fe­brú­ar, að því gefnu að Lyfja­stofn­un Evr­ópu af­greiði um­sókn fyr­ir­tæk­is­ins um skil­yrt markaðsleyfi á föstu­dag. 

Þetta kem­ur fram í skrif­legu svari heil­brigðisráðuneyt­is­ins við fyr­ir­spurn frétta­stofu RÚV. 

Lyfjastofnun Evrópu hefur ekki veitt bóluefni AstraZeneca markaðsleyfi en von er á að það verði gert fyrir lok mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert