Fyrirtæki sem framleiða bóluefni við Covid-19 „verða að afhenda“ segir Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. „Evrópa fjárfesti fyrir milljarða í að aðstoða við þróun fyrstu bóluefnanna við Covid-19,“ sagði hún í streymi á viðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss.
Vaxandi spenna er komin í samskipti ESB og lyfjafyrirtækjanna vegna seinkunar á afhendingu bóluefna til ríkja sem eiga aðild að samstarfi Lyfjastofnunar Evrópu.
„Og núna þurfa fyrirtækin að afhenda. Þau verða að virða skuldbindingar sínar,“ bætti hún við í ávarpi sínu.
Framkvæmdastjórnin krefst svara frá bresk-sænska lyfjafyrirtækinu AstraZeneca og bandaríska lyfjafyrirtækinu Pfizer vegna boðaðra seinkana á afhendingu bóluefnis til ESB og EES-ríkjanna, þar á meðal Íslands.
Uppi eru áhyggjur um að lyfjafyrirtækin séu jafnvel að selja eyrnamerkta skammta til annarra ríkja utan bandalagsins á hærra verði. Vegna þessa er nú rætt um að fyrirtækin verði að tilkynna yfirvöldum ef þau flytja út bóluefni frá ríkjum ESB, það er bóluefni sem eru framleidd innan ESB.
Von der Leyen undirstrikar þetta í ávarpinu og segir að sett verði upp kerfi þar sem gagnsæi ríkir um útflutning bóluefnis þannig að tryggt sé að lyfjafyrirtækin standi við fyrri samninga við ESB.
Málefnið er viðkvæmt fyrir von der Leyen sem hafði forystu um að ríkin myndu sameinast um kaup á yfir tveimur milljörðum skammta af mögulegum bóluefnum við Covid-19. Alls eru íbúar ríkjanna 27 sem eru í ESB 450 milljónir talsins.
Í síðustu viku, eftir að Pfizer tilkynnti um seinkun á afhendingu en áður en AstraZeneca gerði það, sagði von der Leyen að markmiðið væri að bólusetja 70% fullorðinna íbúa ESB-ríkjanna fyrir lok ágúst. Ólíklegt er að það náist miðað við tafir á afhendingu.
Ríki ESB hafa dregist aftur úr ríkjum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi og Ísrael hvað varðar bólusetningar þrátt fyrir að Malta, Frakkland og Danmörk hafi gefið í.
Von der Leyen segir að samstarfið nái ekki bara til ríkja ESB heldur til fátækra ríkja sem fá afhent bóluefni í gegnum COVAX-bólusetningarbandalagið.
Heilbrigðisráðherra Þýskalands, Jens Spahn, tekur undir að koma þurfi á eftirliti með útflutningi lyfjafyrirtækjanna vegna seinkunar á afhendingu frá AstraZeneca.
Spahn segist vera fylgjandi því að gefa þurfi út útflutningsleyfi fyrir það bóluefni sem er flutt frá ríkjum ESB þannig að hægt sé að fylgjast með hvað sé framleitt, hvað sé flutt frá Evrópu og ef það er flutt frá Evrópu hvort það sé í samræmi við góða viðskiptahætti og fyrri samninga.
Á föstudag greindi AstraZeneca frá því að það fyrirtækið gæti ekki staðið við samninga sína við ESB vegna óútskýrðra erfiðleika við framleiðslu. Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur ekki enn gefið út markaðsleyfi fyrir bóluefni AstraZeneca. Fastlega er gert ráð fyrir að lyfið fari á lista EMA fyrir lok vikunnar.