Nýr Bandaríkjaforesti, Joe Biden, kappkostar nú við að kvitta upp á alls kyns lög sem eiga að vinda ofan af embættisverkum forvera hans, Donald Trump. Það sem margir binda mestar vonir við eru róttækar áætlanir Biden um grænni og umhverfisvænni framtíð í Bandaríkjunum. Hann vill afturkalla ýmis ívilnanir og leyfi sem stórtækum aðilum innan jarðefnaeldneytisiðnaðarins var gefið í forsetatíð Trumps.
Það er þó einn demókrati í öldungadeild Bandaríkjaþings sem gæti komið í veg fyrir þetta allt saman, að því er greinendur CNN halda fram: Joe Manchin, öldungadeildarþingmaður Vestur-Virginíu fyrir demókrataflokkinn. Þegar Manchin bauð sig fram til ríkisstjóra í Vestur-Virginíu árið 2010, ríki þar sem kolanámur eru mjög félagslega og efnahagslega mikilvægar, skaut hann fast að frumvarpi demókrata um endurnýjanlega orkugjafa – bókstaflega.
Til marks um sannfæringu sína dró hann upp skotvopn og miðaði henni á frumvarpið sjálft, sem hann hafði prentað út og fest á krossviðarplötu. Hann sagðist svo ætla að lögsækja bandarísku umhverfisstofnunina (EPA) og kveða frumvarpið í kútinn, áður en hann hleypti af byssunni.
Það er þessi öldungadeildarþingmaður, Joe Manchin, sem gæti stöðvað öll áform Joes Biden um „græn frumvörp“ vegna þess að öldungadeildinni er skipt alveg jafnt á milli demókrata og repúblikana. Fari svo að hann kjósi gegn Biden um loftslagsmál er ekki víst að metnaðarfull og róttæk frumvörp Bidens nái í gegnum öldungadeildina.
Meðal þess sem Biden hefur nú þegar gert er að vinda ofan af ákvörðun Donalds Trump um að draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu. Þá hefur Biden lagt stein í götu þeirra stundað hafa leit að jarðgasi á landi í ríkiseigu. Biden lofar því að í hans stjórnartíð verði loftslagsmálum sýnd mikil athygli og að vísindamenn fái frekar um það ráðið hver stefna Bandaríkjanna verður í málaflokknum, frekar en kaupsýslumenn og olíujöfrar.