ESB setur hnefann í borðið

AstraZeneca hefur þróað bóluefni við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla …
AstraZeneca hefur þróað bóluefni við kórónuveirunni í samstarfi við Oxford-háskóla í Bretlandi. AFP

Evrópusambandið krefst þess nú að bóluefnaframleiðandinn AstraZeneca standi við orð sín og gefi aðildarríkjum sambandsins bóluefni frá verksmiðju þeirra í Bretlandi.

Í frétt BBC um málið segir að skortur á framleiðsluefnum hafi sett afhendingaráætlanir AstraZeneca úr skorðum, en talsmenn ESB segja að framleiðsluskorturinn eigi ekki við um verksmiðju AstraZeneca í Bretlandi og því verði skammtar þaðan að koma í staðinn svo samningar standist.

Sagt er að fulltrúar bæði AstraZeneca og ESB muni hittast á næstu dögum til að ræða framhaldið. Fyrr í dag bárust þó fréttir af því að fulltrúar AstraZeneca væru hættir við að mæta til viðræðna við ESB en svo strax í kjölfarið komu fréttir af því að það væri af og frá, AstraZeneca myndi svo sannarlega mæta til viðræðna við ESB.

Fyrir skemmstu var greint frá því að AstraZeneca myndi senda um 60% færri skammta til Evrópu en fyrstu afhendingaráætlanir gerðu ráð fyrir. Ísland er sem fyrr í samfloti með aðildarríkjum ESB hvað bóluefni við kórónuveiruna varðar og er forystufólk í ríkisstjórn bartsýnt á að þorri Íslendinga verði bólusettur á fyrri hluta þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert