Allt er á huldu varðandi tímasetningar á fyrirhuguðum fundi fulltrúa Evrópusambandsins og lyfjafyrirtækisins AstraZeneca um seinkun á afhendingu bóluefnis við Covid-19.
Í morgun tjáði embættismaður ESB blaðamanni AFP að AstraZeneca hefði skyndilega hætt við fundinn sem átti að verða sá þriðji í þessari viku. Þetta var talið merki um stigvaxandi deilur varðandi afhendingu bóluefnisins. Fjölmargir fjölmiðlar birtu fréttir af þessu óvænta upphlaupi í morgun en stuttu síðar sendi AstraZeneca út tilkynningu þar sem fram kemur að lyfjafyrirtækið hefði alls ekki hætt við fundinn heldur muni fulltrúar fyrirtækisins taka þátt í fundi með fulltrúum ESB síðar í dag, miðvikudag.
Ekki er á hreinu hvort AstraZeneca hafi hætt við að hætta við eða hvort heimildir innan ESB væru ekki réttar.
Talskona framkvæmdastjórnar ESB, Dana Spinant, sagði við blaðamenn nú fyrir skömmu að viðræðurnar væru á „þróunarstigi“. Hún geti ekki sagt til um hvað AstraZeneca ætli að leggja fram á fundinum.
Evrópusambandið hefur krafist þess að AstraZeneca standi við gerða samninga hvað varðar fjölda skammta af bóluefni en forstjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, sagði í viðtali í gær að fyrirtækið væri að gera sitt besta til að afhenda skammtana. Ekki sé við fyrirtækið að sakast heldur ESB. Bretar hefðu gert samning við fyrirtækið um kaup á bóluefni þremur mánuðum á undan ESB og því hafi verið hægt að auka framleiðsluna fyrr í lyfjaverksmiðjum AstraZeneca í Bretlandi.
Þessu neitar háttsettur embættismaður ESB sem AFP fréttastofan ræddi við. Ekki sé rétt að bóluefnaverksmiðjur fyrirtækisins í Bretlandi eigi bara að framleiða bóluefni fyrir Breta.
Fulltrúar ESB og lyfjafyrirtækisins funduðu í tvígang á mánudag og segir yfirmaður heilbrigðismála í framkvæmdastjórn ESB, Stella Kyriakides, að fyrirtækið hafi veitt ófullnægjandi svör.
Soriot hefur upplýst um hluta af skilyrðum samkomulagsins við ESB en hefur ekki viljað birta hann í heild. Samningurinn er trúnaðarmál að beiðni AstraZeneca.