Flugöryggismálastofnun Evrópusambandsins, EASA, segir að flugvélar Boeing af tegundinni 737 MAX séu öruggar og þær megi fljúga á nýjan leik í Evrópu, 22 mánuðum eftir að þær voru kyrrsettar vegna tveggja mannskæðra slysa.
Greint er frá þessu á vef Flugöryggismálastofnunarinnar en í síðustu viku kom fram að Boeing hefði uppfyllt fjórar helstu kröfur stofnunarinnar varðandi endurkomu Max-vélanna.
„Við höfum trú á því að flugvélarnar séu öruggar, sem er ástæðan fyrir leyfi okkar. Við munum hins vegar halda áfram að fylgjast vel með 737 MAX-vélunum,“ er haft eftir Patrick Ky, yfirmanni EASA á vef stofnunarinnar.
MAX-vélarnar voru kyrrsettar í mars 2019 eftir tvö slys þar sem 346 manns fórust. Fyrst hrapaði flugvél Lion Air til jarðar árið 2018 í Indónesíu og árið eftir vél Ethiopian Airlines.
Grænt ljós hefur þegar verið gefið í Bandaríkjunum og í Brasilíu á að vélarnar fari í loftið.