Bandaríska lyfjafyrirtækið Novavax tilkynnti í dag að bóluefni þeirra við kórónuveirunni væri með um 90% virkni. Þriðja og seinasta fasa prófana efnisins er nú lokið og voru um 15 þúsund sjálfboðaliðar sem tóku þátt.
„NVX-CoV2373 getur spilað stórt hlutverk þegar kemur að því að vinna bug á þessari alheimsógn,“ er haft eftir Stanley Erck, framkvæmdastjóra Novavax.
En gleðin var þó að einhverju leyti skammvinn þar sem kom einnig í ljós að bóluefni Novavax virðist ekki næstum eins virkt gegn afbrigðum kórónuveirunnar sem talin eru meira smitandi, líkt og afbrigði sem fyrst var uppgötvað í Suður-Afríku.
Þá bárust fréttir af því í dag að bóluefni AstraZeneca yrði líklega ekki veitt fólki eldra en 65 í ára í Þýskalandi, eftir að bólusetningarráð þar í landi réð gegn því.
Bóluefni AstraZeneca hefur ekki enn fengið markaðsleyfi innan Evrópusambandins en vonast er til þess að leyfið fáist á morgun, föstudag. Gera má ráð fyrir því að Lyfjastofnun Íslands veiti bóluefni AstraZeneca markaðsleyfi fljótlega í kjölfarið.