Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur tekið upp hanskann fyrir lyfjafyrirtækið AstraZeneca eftir að þýska bólusetningaráðið (STIKO) mælti gegn því að bóluefni fyrirtækisins yrði gefið fólki 65 ára og eldri vegna skorts á gögnum sem styðja virkni þess á þann aldurshóp.
Þá gagnrýndi talsmaður AstraZeneca niðurstöðu STIKO og sagði gögn úr síðustu klínísku rannsókn fyrirtækisins sýna að bóluefnið virki á fólk yfir 65 ára aldri.
STIKO gaf ekki út nein gögn um virkni bóluefnis AstraZeneca hjá fólki eldra en 65 ára en fjölmiðlar í Þýskalandi hafa margir eftir sínum heimildum að virknin sé í kringum 10%, samanborið við 90-95% virkni bóluefnis Pfizer, svo dæmi sé tekið.
Þessu hafa heilbrigðisyfirvöld í Þýskalandi þó mótmælt en viðurkenna þó að prófanir AstraZeneca á eigin bóluefni meðal eldra fólks hafi ekki verið jafnumfangsmiklar og hjá öðrum framleiðendum.
Bóluefni AstraZeneca hefur ekki enn verið veitt markaðsleyfi meðal aðildarríkja Evrópusambandsins en búist er við að það verði veitt á morgun. Því má gera ráð fyrir að Lyfjastofnun Íslands veiti lyfinu markaðsleyfi fljótlega í kjölfarið.
Johnson sagði blaðamönnum að eftirlitsstofnanir í Bretlandi hefðu komist að þeirri niðurstöðu að bóluefni AstraZeneca „væri mjög gott og áhrifaríkt“ og veitti mikla vernd gegn Covid-19. Bóluefnið hefur verið gefið öllum aldurshópum í Bretlandi síðan það fékk markaðsleyfi þar.