Boris kemur AstraZeneca til varnar

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur mikla trú á virkni bóluefnis …
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur mikla trú á virkni bóluefnis AstraZenica. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur tekið upp hanskann fyrir lyfjafyrirtækið AstraZeneca eftir að þýska bólusetningaráðið (STIKO) mælti gegn því að bóluefni fyrirtækisins yrði gefið fólki 65 ára og eldri vegna skorts á gögnum sem styðja virkni þess á þann aldurshóp.

Þá gagnrýndi talsmaður AstraZeneca niðurstöðu STIKO og sagði gögn úr síðustu klínísku rannsókn fyrirtækisins sýna að bóluefnið virki á fólk yfir 65 ára aldri.

STI­KO gaf ekki út nein gögn um virkni bólu­efn­is AstraZeneca hjá fólki eldra en 65 ára en fjöl­miðlar í Þýskalandi hafa marg­ir eft­ir sín­um heim­ild­um að virkn­in sé í kring­um 10%, sam­an­borið við 90-95% virkni bólu­efn­is Pfizer, svo dæmi sé tekið. 

Þessu hafa heil­brigðis­yf­ir­völd í Þýskalandi þó mót­mælt en viður­kenna þó að próf­an­ir AstraZeneca á eig­in bólu­efni meðal eldra fólks hafi ekki verið jafn­um­fangs­mikl­ar og hjá öðrum fram­leiðend­um.

Bóluefnið „mjög gott og áhrifaríkt“

Bólu­efni AstraZeneca hef­ur ekki enn verið veitt markaðsleyfi meðal aðild­ar­ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins en bú­ist er við að það verði veitt á morg­un. Því má gera ráð fyr­ir að Lyfja­stofn­un Íslands veiti lyf­inu markaðsleyfi fljót­lega í kjöl­farið.

Johnson sagði blaðamönnum að eftirlitsstofnanir í Bretlandi hefðu komist að þeirri niðurstöðu að bóluefni AstraZeneca „væri mjög gott og áhrifaríkt“ og veitti mikla vernd gegn Covid-19. Bóluefnið hefur verið gefið öllum aldurshópum í Bretlandi síðan það fékk markaðsleyfi þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert