Í huga hasara í Afganistan er valið einfalt. Annaðhvort að bíða eftir næstu árás hermanna Ríkis íslams þar sem fólk myndi týna lífinu eða að grípa til vopna og reyna að hrinda árásarmönnum frá sér. Þjóðarbrotið hefur verið ofsótt lengi vegna trúarskoðanna, þeir eru sjítar en meirihlutinn er súnní.
Í myndskeiði AFP-fréttaveitunnar er rætt við Hamidullah Asadi, meðlim í vopnaðri sveit hasara, hann hefur nýverið náð sér af meiðslum sem hann hlaut í einni af árásum Íslamska ríkisins. „Við neyddumst til að grípa til vopna,“ útskýrir hann. Fólkið býr í víðáttumiklu fjalllendi Afganistan þar er nú kalt og allt þakið snjó.
Hasarar segja yfirvöld standa sig illa í að veita þeim vernd fyrir árásum íslamistanna. Talibönum hefur vaxið ásmegin að undanförnu í kjölfar þess að alþjóðlegar sveitir voru dregnar tilbaka frá landinu og þetta eykur áhyggjur hasara. Þjóðarbrotið er talið vera á milli 10 og 20 prósent þjóðarinnar.
Minnkandi vald ríkisstjórnarinnar er talið auka líkur á að borgarastyrjöld sé í aðsigi en átök á milli trúarhópa eiga sér langa sögu í Afganistan þar sem hasarar hafa í gegnum tíðina verið einangraðir og þar af leiðandi í veikri stöðu.
Hermenn hasara búa yfir sprengjuvörpum og léttum vopnum sem þeir nota til að ná yfirráðum yfir vegum og flutningaleiðum á svæðinu. Undanfarið hafa þeir gert skæruárásir á svæði undir stjórn Talibana þar sem þeir hafa rænt ættingjum hermanna í því skyni að geta gert skipti á gíslum úr röðum hasara og Talibanar hafa svarað í sömu mynt.
Yfirvöld hafa miklar áhyggjur af þróuninni og eru hikandi við að stíga of fast til jarðar af ótta við að hella olíu á eldinn. Að undanförnu hafa vígamenn Ríkis íslams gert sjálfsmorðsárásir á moskur, sjúkrahús og fundi hasara í vesturhluta Kabúl þar sem hundruð hafa látið lífið.
Í myndskeiðinu er einnig rætt við Murad Ali Haidari sem flutti fjölskyldu sína frá Kabúl í borgina Bamiyan í fjöllunum í von um meira öryggi. Það reyndist ekki nóg því sonur hennar lét lífið í annarri af tveimur árásum á svæðinu í síðastliðnum nóvember.