Mæla gegn notkun AstraZeneca fyrir eldri en 65 ára

Heilbrigðisstarfsmaður í Bretlandi tekur bóluefnaskammt í sprautu sína úr glasi …
Heilbrigðisstarfsmaður í Bretlandi tekur bóluefnaskammt í sprautu sína úr glasi frá AstraZeneca. Þýskir fjölmiðlar segja að það virki ekki nema í um 10% tilfella hjá eldra fólki. AFP

Þýska bólusetningaráðið (STIKO) hefur mælt gegn því að bóluefni AstraZeneca við kórónuverunni verði gefið fólki 65 ára og eldri, vegna skorts á gögnum sem styðja virkni þess á eldra fólki.

Miðað við gögn sem fáanleg eru um bóluefni AstraZeneca, sem þróað var í samstarfi við Oxford-háskóla, sé aðeins rétt að mæla með notkun þess hjá fólki á aldrinum 18-65 ára.

Bóluefni AstraZeneca hefur ekki enn verið veitt markaðsleyfi meðal aðildarríkja Evrópusambandsins en búist er við að það verði veitt á morgun. Því má gera ráð fyrir að Lyfjastofnun Íslands veiti lyfinu markaðsleyfi fljótlega í kjölfarið.

Vísa staðhæfingum fjölmiðla á bug

STIKO gaf ekki út nein gögn um virkni bóluefnis AstraZeneca hjá fólki eldra en 65 ára en fjölmiðlar í Þýskalandi hafa margir eftir sínum heimildum að virknin sé í kringum 10%, samanborið við 90-95% virkni bóluefnis Pfizer, svo dæmi sé tekið. 

Þessu hafa heilbrigðisyfirvöld í Þýskalandi þó mótmælt en viðurkenna þó að prófanir AstraZeneca á eigin bóluefni meðal eldra fólks hafi ekki verið jafnumfangsmiklar og hjá öðrum framleiðendum.

„Að segja að bóluefnið sé með aðeins um 10% virkni er illskiljanlegt og rangt að okkar mati,“ sagði talsmaður þýskra heilbrigðisyfirvalda.

„Að endurtaka ranga staðhæfingu í sífellu gerir hana ekkert réttari fyrir vikið,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert