Birta samninginn við AstraZeneca

Bóluefni AstraZeneca, hér í notkun á Sri Lanka.
Bóluefni AstraZeneca, hér í notkun á Sri Lanka. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur birt ritskoðaða útgáfu af samningi sínum við lyfjafyrirtækið AstraZeneca, í von um að sanna að fyrirtækið hafi brotið í bága við ákvæði samningsins um afhendingu bóluefna við kórónuveirunni.

Talsmaður sambandsins, Eric Mamer, segir skjalið munu sýna að samningurinn nái einnig til framleiðslustöðva AstraZeneca í Bretlandi. Í honum sé kveðið á um að þær stöðvar gegni einnig hlutverki við framleiðsluna til að koma bóluefnisskömmtum til Evrópusambandsins.

Framkvæmdastjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, fullyrti í viðtali fyrr í vikunni að afhending bóluefnis í Evrópu hefði tafist vegna örðugleika í verksmiðju í Belgíu.

Bretar undirrituðu þremur mánuðum fyrr

Bretland skrifaði undir samning við AstraZeneca þremur mánuðum áður en yfirvöld Evrópusambandsins gerðu það og notaði fyrirtækið tímann til að leysa vandamál við framleiðslu og afhendingu frá verksmiðjum sínum í landinu.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur brugðist illa við því að framleiðsluörðugleikar bitni nú einungis á afhendingu bóluefnis til sambandsins en ekki til Bretlands.

Heldur hún því fram að í samningnum segi ekkert um að framleiðsla efnis í Bretlandi sé einungis fyrir Breta.

„Í okkar huga er algjörlega enginn vafi um að við höfum sterkt samkomulag við fyrirtækið eins og öll önnur fyrirtæki um að afhenda bóluefnisskammta í samræmi við tilteknar áætlanir,“ sagði talsmaður sambandsins á blaðamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert