Forsvarsmenn kirkjugarðs í ríkinu Louisiana í Bandaríkjunum hafa beðist afsökunar eftir að þeir neituðu að jarða svartan lögreglumann vegna áratugagamallar reglu um að aðeins megi jarða þar hvítt fólk.
Stjórn kirkjugarðsins Oaklin Springs hittist í gær til að breyta sölusamningi sínum eftir að hafa orðið fyrir harðri gagnrýni vegna reglunnar.
Ekkja lögreglumannsins Darrell Semien sagði það hafa verið eins og að fá blauta tusku í andlitið að ekki hafi mátt jarða hann vegna húðlitar hans, að sögn BBC.
Formaður stjórnarinnar sagði hana ekki hafa vitað af reglunni sem hann sagði „hræðilega“.
Semien, 55 ára, var lögreglustjóri á svæðinu og bjó í Oberlin, bæ sem er staðsettur um 320 kílómetrum vestur af New Orleans. Hann lést úr krabbameini á sunnudaginn.
Þegar ekkja hans, Karla Semien, og börnin þeirra ætluðu að fá að jarða hann í Oaklin Springs sagði starfsmaður að kirkjugarðurinn væri „bara fyrir hvíta“.