Setja útflutningshömlur á bóluefni

Stella Kyriakides, framkvæmdastjóri ESB í heilbrigðismálum, ræðir við fjölmiðla um …
Stella Kyriakides, framkvæmdastjóri ESB í heilbrigðismálum, ræðir við fjölmiðla um bóluefni og útflutning á þeim. AFP

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti fyrr í kvöld nýjar reglur sem veita henni heimild til þess að banna útflutning á bóluefni og hráefni til bóluefnagerðar til vissra ríkja ef viðkomandi lyfjafyrirtæki hefur ekki staðið við samninga sína til sambandsins. Um 100 ríki eru á undanþágulista frá heimildinni, þar á meðal Ísland og hin EFTA-ríkin. 

Í tilkynningu framkvæmdastjórnarinnar sagði að hennar helsta forgangsmál væri öryggi og vernd þegna Evrópusambandsins, og að áskoranirnar framundan hefðu neytt hana til þess að grípa til þessara aðgerða. Þá hafa talsmenn sambandsins hafnað því að aðgerðirnar beinist sérstaklega að lyfjafyrirtækinu AstraZeneca, en framkvæmdastjórnin hefur sakað fyrirtækið um að hafa ekki staðið við samninga sína um framleiðslu á bóluefni handa sambandinu. 

Hinar nýju reglur munu knýja lyfjafyrirtæki til þess að sækja um heimild til framkvæmdastjórnarinnar til þess að flytja bóluefni út til vissra ríkja, en þar á meðal eru  Bandaríkin, Bretland og Japan. Á undanþágulista sambandsins eru hins vegar EFTA-ríkin, nokkur ríki Balkansskaga sem sótt hafa um aðild að sambandinu og nokkur nágrannaríki sambandsins í Norður-Afríku. Þá eru einnig undanþágur til ýmissa af fátækari ríkjum heims.

Stella Kyriakides, framkvæmdastjóri ESB í heilbrigðismálum hafnaði því hins vegar að aðgerðirnar beindust að einstökum ríkjum, en deila sambandsins við grunninn hefur haft slæm áhrif á samskipti þess við Bretland. 

WHO gagnrýnir aðgerðirnar

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO gagnrýndi aðgerðir framkvæmdastjórnarinnar og sagði þær hluta af varhugaverðri þróun sem gæti stefnt virðiskeðju bóluefna í heiminum í hættu. 

Mariangela Simao, aðstoðarframkvæmdastjóri WHO, sagði það ekki gagnlegt fyrir baráttuna gegn kórónuveirunni ef ríki fara að hamla flutningum á bóluefnum eða hráefnum til þeirra. 

Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, tók í sama streng á Twitter-síðu sinni, en hann sagðist hafa vonað að Evrópusambandið myndi ekki leiða heiminn á vegferð til glötunar með „bóluefna-þjóðernishyggju“. Velgengni sambandsins hefði byggst á opnum virðiskeðjum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert