Austurrískur maður af gyðingaættum sem flúði Þýskalands nasismans með fjölskyldu sinni í síðari heimsstyrjöldinni og fékk skjól í frönsku þorpi launaði greiðann með því að arfleiða þorpið að stórum hluta auðæfa sinna. Þorpsbúar komu fjölskyldunni fyrir í skólahúsnæði þar sem hún lifði huldu höfði þangað til stríðinu lauk.
Maðurinn, Eric Schwam, lést þann 25. desember sl. þá níræður að aldri. Eftir andlát hans kom í ljós að í erfðaskrá sinni hafði hann gefið þau fyrirmæli að þorpið sem skýldi honum og fjölskyldu hans fyrir ofsóknum nasista ætti að erfa Eric. Íbúar þorpsins Chambon-sur-Lignon eru flestir mótmælendatrúar en eru þekktir fyrir að hjálpa bágstöddum.
„Þetta er stór upphæð fyrir okkur,“ sagði bæjarstjórinn Jean-Michel Eyraud við AFP-fréttaveituna. Hann vildi ekki gefa upp nákvæma fjárhæð en hún er sögð vera í kringum tvær milljónir evra, sem samsvarar um 313 milljónum króna.
Schwam og fjölskylda hans bjuggu í þorpinu til ársins 1950, þar af í húsnæði skólans á meðan stríðinu stóð. Hann lærði síðar lyfjafræði og giftist franskri konu. Hinsta ósk Schwam var að arfurinn yrði notaður í menntamál og önnur málefni tengd ungmennum.
Um 2.500 gyðingar fengu skjól í Chambon-sur-Lignon á meðan síðari heimsstyrjöldinni stóð og voru þorpsbúar síðar heiðraðir sérstaklega af Ísraelsríki.