Ungverjar kaupa bóluefni frá Kína og Rússlandi

AFP

Ungverjaland varð í dag fyrsta ríki Evrópusambandsins til að veita kínverska bóluefninu Sinopharm markaðsleyfi. Fyrir viku síðan veitti Ungverjaland rússneska bóluefninu Spútnik V og rauf þar samstöðu ESB-ríkjanna 27 og EES um kaup á bóluefnum. 

Landlæknir Ungverjalands, Cecília Györgyi Müller, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag en í morgun hafði Viktor Orban forsætisráðherra sagt að yfirvöld stefndu að því að skrifa undir samkomulag við kínverska lyfjafyrirtækið í dag eða á morgun um afhendingu á fyrsta skammti. Orban bætti við að ef hann myndi sjálfur velja þetta bóluefni fyrir sig sjálfan. 

„Kínverjar hafa þekkt veiruna lengst og því væntanlega með mestu þekkinguna á henni. Þannig að ég bíð eftir að það komi að mér og þegar það verður þá vil ég fá kínverska bóluefnið,“ sagði Orban. 

Ungversk stjórnvöld eiga von á því að panta hálfa milljón skammta af Sinopharm bóluefninu til afhendingar í febrúar. Ungverjar hafa pantað tvær milljónir skammta af rússneska bóluefninu, Spútnik V.

Í tilskipun sem var birt í gær og tekur gildi í dag er utanríkisráðherra veitt heimild til þess að skrá hvaða bóluefni sem er án samþykkis lyfjastofnun landsins. Skilyrðið er að þegar hafi verið gefið út markaðsleyfi fyrir viðkomandi bóluefni á svæði þar sem fleiri en ein milljón býr á.

Ríkisstjórnin sagði nauðsynlegt að gefa út þessa tilskipun til að flýta bólusetningarferlinu. Orban segir að fylgst sé með hvernig bólusetning með kínverska bóluefninu gengur í nágrannaríkinu, Serbíu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert