Á heimsvísu eru fáir staðir með jafn strangar reglur um sóttkví við komuna til landsins og Hong Kong. Þar þarf fólk að dvelja á hótelherbergi í 21 dag við komuna og sýna skjöl sem staðfesta þetta áður en því er hleypt inn í ríkið. Misjafnt er hvað fólk hefur fyrir stafni í sóttkví en í myndskeiði AFP sést ágætismynd af dvölinni.
Xavier Tran er 33 ára gamall og starfar við tölfræðigreiningu í tryggingageiranum. Hann hefur komið sér upp rútínu í herbergi sínu í einum af skýjakljúfum borgarinnar. Hann vaknar, fær sér kaffi og vinnur í tölvunni. Síðan tekur við lestur, hlustun eða áhorf, þá reynir hann að teygja eða hrista skankana til að brjóta upp dagana.
Lee Jung-soo er enskur vegan-frumkvöðull. Hún komst að því að 21 dags reglan hefði verið sett á í Hong Kong þegar hún steig upp í flugvél á Tókíó-flugvelli. Þá þurfti hún að hafa hraðar hendur til að bóka nýtt hótel og borga það fyrir fram. Hún drepur tímann með því að spila á gítarinn sinn.
Faðir Christine Tobias lést fyrir skömmu og því átti hún engan annan kost en að ferðast til heimalandsins til að vera með fjölskyldunni. Henni finnst dvölin helst til löng. „Ég held að 14 dagar ættu að vera nóg en ef þetta verndar fólk hér í Hong Kong þá er sjálfsagt að gera þetta,“ segir hún í samtali við AFP.
Um 10.000 staðfest tilfelli Covid-19 hafa greinst í Hong Kong og dauðsföllin eru í kringum 170. Strangar sóttkvíarreglur eru kostnaðarsamar fyrir þá sem þurfa að ferðast og Tran þurfti til að mynda að greiða um 200 þúsund krónur fyrir dvölina á hótelinu.