Ákærður fyrir tvöfalt morð

Lögreglumenn að störfum í Frakklandi.
Lögreglumenn að störfum í Frakklandi. AFP

Atvinnulaus verkfræðingur, sem er grunaður um að hafa skotið til bana starfsmann atvinnumiðlunar og mannauðsstjóra í suðausturhluta Frakklands, hefur verið ákærður fyrir tvöfalt morð og færður í gæsluvarðhald.

Gabriel Fortin er sakaður um að hafa skotið til bana starfsmann atvinnumiðlunar á vegum ríkisins og aðra konu í húsnæði fyrirtækis þar sem hann starfaði til ársins 2010.

Saksóknarinn Alex Perrin sagði að maðurinn hefði drepið fólkið að yfirlögðu ráði.

Fortin er 45 og einhleypur. Hann hafði ekki áður komist í kast við lögin. Hann fór fyrst inn í atvinnumiðlunina í borginni Valence og ók svo í nærliggjandi bæ, Guilherand-Granges, þar sem hann skaut hina konuna, að sögn saksóknara.

Maðurinn var handtekinn í bíl sinnum sama dag og morðin voru framin. Byssa fannst í bílnum.

Saksóknarar telja að maðurinn tengist morði á þriðju konunni, sem var einnig mannauðsstjóri, í héraðinu Alsace. Rannsókn á því máli stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert