Mannréttindahreyfingin Black Lives Matter hefur nú verið tilnefnd til friðarverðlauna Nóbels.
„Þessi hreyfing er orðin ein stærsta alþjóðahreyfingin sem vinnur gegn kynþáttamisrétti,“ sagði norski þingmaðurinn Petter Eide við AFP-fréttaveituna, en hann tilnefndi BLM til verðlaunanna.
Friðarverðlaunin verða tilkynnt í byrjun október, en síðast fóru þau til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna.
Þá hlutu samtökin Black Lives Matter Global Network Foundation í gær sænsk mannréttindaverðlaun sem kennd eru við fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, Olof Palme.
Forsvarsmenn verðlaunanna sögðu samtökin vera heiðruð fyrir að stuðla að „friðsamlegri borgaralegri óhlýðni gegn lögregluofbeldi og kynþáttaofbeldi“ um allan heim.
Hreyfingin, sem varð til í Bandaríkjunum árið 2013, tók mikinn kipp í maí á síðasta ári eftir að George Floyd, sem var svartur, var myrtur af hvítum lögreglumanni sem kraup ofan á hálsi hans í átta mínútur.