Lögregluyfirvöld í Merseyside á Englandi rannsaka nú dánarorsök ungbarns hvers lík fannst í skóglendi á golfvelli í Bebington í gær, föstudaginn 29. janúar. Talsmaður lögreglunnar segir ekki ljóst hvenær barnið dó, hversu lengi það hafi legið á staðnum eða hvort andlátið hafi borið að með saknæmum hætti.
Eftir að líkið fannst fór fram umfangsmikil leit í nágrenninu að vísbendingum. Krufning fer fram á mánudaginn. ITV greinir frá.
Lee Turner, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Merseyside, bað almenning að aðstoða lögreglu við rannsóknina með því að veita allar upplýsingar en varaði við því að dreifa óstaðfestum upplýsingum um málið.
„Þetta er augljóslega mjög viðkvæmt mál en ég vil fullvissa almenning um að við munum gera allt í okkar valdi til að komast til botns í því hvað gerðist. Núna get ég einungis sagt að líkið sem fannst virðist vera af dreng sem fór í gegnum fulla meðgöngu,“ sagði Turner.
„Krufning mun fara fram á mánudaginn til að rannsaka hvernig andlátið bar að garði. Þá er verið að skoða allar leiðir til að rekja hver móðirin var og kanna heilsufar hennar og hvort hún þurfi á stuðningi að halda.“