Ríkisstjórn Portúgals hefur ákveðið að banna allar ónauðsynlegar utanlandsferðir og hefur hafið átak til að ráða til sín erlenda lækna eftir að fjöldi dauðsfalla vegna Covid-19 náði nýjum hæðum á dögunum. Margir spítalar eru yfirfullir af sjúklingum og er hlutfall dauðsfalla í Portúgal nú það hæsta meðal landa Evrópusambandsins.
„Við verðum að ná tökum á þessari bylgju. Núna,“ sagði Marcelo Rebelo de Sousa, nýlega endurkjörinn forseti Portúgals, í ávarpi til þjóðarinnar í gær. Neyðarástand sem lýst hefur verið yfir í landinu verður framlengt til 14. febrúar að minnsta kosti.
Á fimmtudaginn voru dauðsföllin 303 talsins sem er met á einum degi og ný tilfelli 16.432. Sjúkrabílar sem flytja Covid-sjúklinga þurfa að bíða í biðröð fyrir utan spítala á sumum stöðum. BBC greinir frá.
Samkvæmt tölum frá Sóttvarnastofnun Evrópu er hlutfall dauðsfalla í Portúgal nú það hæsta í Evrópu miðað við síðustu tvær vikur, með 247,5 dauðsföll á hverja milljón íbúa. Slóvenía vermir annað sætið á þeim lista með 208,5 dauðsföll á milljón íbúa og Tékkland kemur þar á eftir með 205. Til samanburðar er nágrannalandið Spánn með 84 dauðsföll á hverja milljón íbúa.
Meira en 23 þúsund læknar eða læknismenntaðir starfsmenn heilbrigðiskerfisins hafa sýkst af Covid-19 síðan faraldurinn hófst og um helmingur hefur náð heilsu. Til að bregðast við skorti á starfsfólki hefur verið brugðið á það ráð að sækja læknismenntað starfsfólk frá öðrum löndum og gera við það eins árs starfssamninga.
Flugferðum til og frá fyrrverandi nýlendu Portúgals, Brasilíu, hefur verið aflýst auk þess sem aðgerðir á landamærum Spánar og Portúgals hafa verið hertar.
Til stóð að opna skóla á nýjan leik í næstu viku, 5. febrúar, en hætt hefur verið við þau áform. Í staðinn munu nemendur halda áfram í fjarkennslu.