Kista lögreglumanns Bandaríkjaþings sem lést af völdum meiðsla sem hann hlaut þegar æstir stuðningsmenn Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, ruddust þangað inn mun standa í þinghúsinu honum til heiðurs.
Brian Sicknick, 42 ára, var laminn í höfuðið með slökkvitæki er hann átti í átökum við múginn sem hafði ruðst inn í þinghúsið.
Hann sneri aftur á lögreglustöðina eftir árásina og þar hneig hann niður og var fluttur á sjúkrahús. Daginn eftir lést hann og voru fórnarlömb árásarinnar á þinghúsið þar með orðin fimm.
„Bandaríkjaþing syrgir í sameiningu, með þakklæti í huga fyrir þjónustu og fórnir lögreglumannsins Brians Sicknicks,“ sögðu Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins, og Chuck Schumer, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni, í yfirlýsingu. Að sögn BBC mun kistan standa í þinghúsinu í tvo daga.
Sértök heiðursathöfn verður haldin í þinghúsinu til að minnast Sicknicks. Aðeins fjórir aðrir hafa verið heiðraðir á þennan hátt. Þeir eru predikarinn Billy Graham, mannréttindaleiðtoginn Rosa Park og tveir aðrir lögreglumenn Bandaríkjaþings, þeir Jacob Chestnut og John Gibson, sem voru drepnir í skotárás í byggingunni árið 1998.