Mótmæla barneignum lesbía

Mótmælendur í Angers í dag.
Mótmælendur í Angers í dag. AFP

Nokkur þúsund hafa safnast saman á götum úti bæði til þess að mótmæla og sýna stuðning fyrirhuguðum lagabreytingum í Frakklandi sem myndu leyfa barneignir lesbía með tæknifrjóvgun. Komið hefur til árekstra milli hópanna. 

Stærst urðu mótmælin gegn lagabreytingunum í Angers í vesturhluta Frakklands, þar sem um 900 mótmæltu og svipaður fjöldi fagnaði breytingunum fyrirhuguðu. 

Árekstur varð á milli hópanna. Samkvæmt fréttaflutningi af svæðinu hafa tveir verið handteknir. 

Mótmæli hafa farið fram á minni skala á öðrum stöðum í Frakklandi, sem og í viðskiptahverfinu La Defense vestan við París. 

Reyndu að stöðva mótmæli

Einnig hefur komið til átaka í Rennes, höfuðborg Bretaníu í Frakklandi, þar sem um 250 andstæðingar barneigna lesbía mættu 600 stuðningsmönnum þeirra sem reyndu að stöðva mótmælin. 

Lögreglan greip til vatnsþrýstibyssa og táragass til að stöðva aðförina að mótmælunum enda voru þau leyfileg og friðsæl. Þrír voru handteknir. 

Í Lille í Norður-Frakklandi komu um 400 saman til að mótmæla, þeirra á meðal hinn 53 ára grafíski listamaður Vianney Cuvelier sem sagði við fréttastofu AFP: „Ég er hingað kominn til að verja börnin, vegna þess ég trúi því að börnum sem fæðast án föður sé mismunað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert