Próflaus en ekki ráðalaus

Álfhildur Reidársdottir lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, enda aðhyllist …
Álfhildur Reidársdottir lætur sér fátt fyrir brjósti brenna, enda aðhyllist hún forn norræn gildi eins og nafnið gefur til kynna. Hún missti bílprófið og fer nú á kanó, skautum eða skíðum þvert yfir stöðuvatn í Rendalen til að komast til vinnu á umönnunarheimilið þar sem hún lærir til sjúkraliða. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var skírð Vilde, en upprunalega nafnið að baki þess nafns á norrænu var Álfhildr sem svo varð að Alvilde og að lokum Vilde í nútímanorsku,“ útskýrir Álfhildur Reidársdottir í samtali við mbl.is, 21 árs gamall sjúkraliðanemi frá Ósló, sem þrátt fyrir nánast alíslenskt nafn sitt er eins norsk og framast er unnt, skírð Vilde Graneng Holmen.

Álfhildur er mikil áhugamanneskja um norrænu, það er að segja tungu Norðmanna að fornu sem varast ber að rugla saman við frumnorrænu sem var hin sameiginlega tunga norrænu þjóðanna og stundum kölluð dönsk tunga í fyrndinni.

„Mér finnst mikil synd að við Norðmenn höfum ekki gert meira af því að halda í gömlu norrænu nöfnin sem glötuðust að stórum hluta, meðal annars á því tímabili þegar Noregur heyrði undir Danmörku í 400 ár,“ segir Álfhildur.

Hún hafi því sem unglingur spurt móður sína hvort hún sæi nokkra meinbugi á því að dóttirin léti breyta nafni sínu til samræmis við þessa sannfæringu sína og lét svo verða af breytingunni að fengnu samþykki móðurinnar og tók auk þess skírnarnafn föður síns upp sem föðurnafn, rétt eins og tíðkast hjá þorra Íslendinga.

„Þetta tók ekki nema tvær vikur hjá norsku þjóðskránni. Ég þurfti að leggja fram greinargerð um þær ástæður sem lágu að baki umsókninni um nafnbreytinguna og útskýrði þar áhuga minn á norrænni nafnahefð og að ég óskaði eftir að bera það sem var mitt gamla norræna nafn og þetta var samþykkt, hálfum mánuði seinna hét ég Álfhildur,“ segir hún og hlær.

Missti prófið á ögurstundu

Reyndar var þetta fróðlega nafnaspjall hreinn útúrdúr þar sem viðtalið snýst í raun um hve þrautgóð Álfhildur var á raunastund þegar hún missti bílprófið fyrir hraðakstur eftir að hafa komist í tveggja ára lærlingsstöðu til sjúkraliða við Rendalen sykehjem, umönnunarheimili sem, eins og nafnið gefur til kynna, er í Rendalen, nærri miðju Innlandet-fylkis og rúma 100 kílómetra frá Elverum þar sem Álfhildur bjó og sótti framhaldsskóla.

Hún hafði ætlað sér að fara akandi milli Elverum og vinnunnar í Rendalen þrátt fyrir vegalengdina, en þær áætlanir urðu að engu þegar Álfhildi varð bensínfóturinn fullþungur. „Ég keyrði allt of hratt og þetta voru eiginlega tvö skipti,“ útskýrir sjúkraliðaneminn.

Rendalen í Innlandet-fylki er rómaður fyrir náttúrufegurð, magnaðar gönguleiðir og …
Rendalen í Innlandet-fylki er rómaður fyrir náttúrufegurð, magnaðar gönguleiðir og fisksæl vötn sem freista margs stangveiðimannsins. Ljósmynd/opplevrendalen.no

„Það fyrra var snemma í vetur, fyrir áramót. Þá náðist ég á hraðamyndavél og var rétt undir þeim mörkum að missa prófið, slapp fyrir horn, en lenti á hálfgerðu skilorði, fékk að halda prófinu en var sett á reynslutíma [n. prøvetid],“ segir hún frá.

Skammt reyndist þó stórra högga á milli við aksturinn og fimm dögum áður en Álfhildur átti að hefja störf í Rendalen var hún gripin á nýjan leik, að þessu sinni við hraðamælingu lögreglubifreiðar, og var þá engin miskunn hjá Magnúsi, ökuleyfissvipting í eitt ár auk 23.000 króna sektar, jafnvirði tæplega 350.000 íslenskra króna.

Ein laus íbúð á svæðinu

Nú voru góð ráð dýr, Álfhildur bjó 100 kílómetra frá vinnustaðnum og var á leið í vaktavinnu sem féll engan veginn að almenningssamgöngum sem auk þess taka rúmar fimm klukkustundir. Henni var því nauðugur einn kostur að flytja nær vinnustaðnum og þar sem hún lítur á störf við umönnun sjúkra og aldraðra sem köllun sína í lífinu lét hún skeika að sköpuðu.

„Ég fékk að búa á heimilinu, í herbergi sem var ekki í notkun, fyrsta mánuðinn, en svo varð ég að finna mér húsnæði og á þeim tíma reyndist ein leiguíbúð vera laus á svæðinu,“ segir Álfhildur, en í sveitarfélaginu öllu bjuggu aðeins 1.759 manns við lok þriðja ársfjórðungs í fyrra, þar af 269 á svæði Álfhildar.

Álfhildur í vetrarríki Rendalen, stöðuvatnið Lomnessjøen í baksýn sem hún …
Álfhildur í vetrarríki Rendalen, stöðuvatnið Lomnessjøen í baksýn sem hún lætur ekki aftra sér frá að komast í vinnuna hinum megin. Ljósmynd/Aðsend

Þar með brast næsta áfall á í þyrnum stráðri atvinnusögu nemans, eina lausa íbúðin á svæðinu var hinum megin við stöðuvatnið Lomnessjøen sem liggur eftir dalnum endilöngum, göngutúrinn í vinnuna á níunda kílómetra, aðra leið.

Álfhildur lét þó slag standa, enda skáti til margra ára og ekki á því að láta náttúru eða landshætti aðra setja sér stólinn fyrir dyrnar. Leigusalinn reyndist engin önnur en Gunhild Kværness, aðstoðarprófessor við Háskólann í Hamar, sem ræddi ítarlega við mbl.is síðustu helgi um ævintýralegt líf sitt á Íslandi á öldinni sem leið. Hún valdi Álfhildi strax úr hópi umsækjenda, enda annálaður Íslandsvinur og taldi strax af nafninu að dæma að Álfhildur væri íslensk.

Með þeim tókust samningar þrátt fyrir þjóðernið og hefur Álfhildur síðan búið á Lomnes, handan vatnsins, en í stað þess að ganga umhverfis það til vinnu styttir hún sér leið og fer beint yfir vatnið.

„Ég lærði á kanó í skátunum og áður en vatnið lagði í vetur reri ég honum yfir til að komast í vinnuna,“ segir hún frá. Þegar vetur konungur hélt innreið sína voru skautarnir dregnir fram og hleypt skeiði hörðu yfir ísa, eins og séra Oddur frá Miklabæ í ljóði Einars Benediktssonar, þótt færleikur klerksins hafi reyndar verið hross.

Notar kirkjuturn sem stefnuvita

Skátinn leggur ekki í neitt feigðarflan heldur borar gegnum ísinn með ísbor og mælir þykkt hans þannig, sem nú er um 15 sentimetrar. Hún lét svo kné fylgja kviði þegar ísflöturinn varð snæviþakinn og tók fram gönguskíðin. „Þetta er fín æfing og ég er ekki nema tuttugu mínútur í vinnuna,“ segir hún. Auðvelt sé að leiðrétta stefnuna á leið yfir vatnið því umönnunarheimilið stendur við hlið Ytre Rendal kirke og siglir Álfhildur því eða skíðar eftir turni hennar.

Lomnessjøen og Rendalen breyta um ásýnd yfir sumarmánuðina og draga …
Lomnessjøen og Rendalen breyta um ásýnd yfir sumarmánuðina og draga að sér útivistarfólk og göngugarpa, en í janúar skefur þar lausamjöll á skógi og tunglið skyggnist yfir hlíð. Ljósmynd/Wikipedia.org/Orland

Hún segist ákveðin í að ljúka tveggja ára starfssamningi sínum við heimilið í Rendalen og þar með svokölluðu fagbréfi sem sjúkraliði. „Mér finnst svo gott að starfa innan um eldra fólk, maður lærir svo margt af því sem það hefur upplifað sem maður getur svo tekið með sér áfram út í lífið,“ segir Álfhildur. Innst inni á borgarbarnið sér þó annan draum sem hún ljóstrar upp við lok samtalsins.

„Mig dreymir um að búa uppi í sveit, reka þar skepnur og lifa af gæðum jarðarinnar, vera sjálfbær. Þá getur líka alveg komið sér vel að kunna eitthvað fyrir sér á heilbrigðissviði,“ segir Álfhildur Reidársdottir, sjúkraliðanemi, skáti og gallhörð útivistarmanneskja, að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert