Rússneskur milljarðamæringur segist eiga höllina

Eignin er sögð metin á um 240 milljarða króna.
Eignin er sögð metin á um 240 milljarða króna. AFP

Arkady Rotenber, rússneskur milljarðamæringur sem hagnast hefur á olíuviðskiptum, segist vera eigandi Svartahafshallarinnar svokölluðu, lúxuseignar við Svartahafið sem Alexei Navalní, andstæður rússneska stjórnvalda, sagði Vladimír Pútín eiga. Eignin er sögð vera metin á 1,35 milljarða bandaríkjadollara eða um 240 milljarða króna.

Navalní, sem lengi hefur elt grátt silfur við Pútín og var handtekinn á dögunum, sendi nýlega frá sér myndskeið þar sem hann greinir frá rannsókn sinni á auðæfum Pútíns. Rússneski forsetinn hefur hins vegar þrætt fyrir að eiga umrædda eign. Myndbandið hefur fengið yfir 100 milljón áhorf en þar kom fram að greitt hafi verið fyrir eignina með „stærstu mútugreiðslu í sögunni“.

Nú hefur Rotenber, sem er sagður tengjast forsetanum nánum böndum, stigið fram og tekið meinta hallareign forsetans á sig. Þetta sagði hann í ríkissjónvarpi í Rússlandi fyrr í dag. Í framhaldi sendi talsmaður Rotenbers út yfirlýsingu. BBC greinir frá.

Vladimír Pútín og Arkady Rotenber eru æskuvinir og stunduðu júdó …
Vladimír Pútín og Arkady Rotenber eru æskuvinir og stunduðu júdó saman. AFP

„Fyrir nokkrum árum náði ég samningum við lánardrottna og eignaðist lóðina í framhaldinu,“ sagði Rotenber í yfirlýsingunni. Þar kom einnig fram að framkvæmdum á lóðinni muni ljúka innan tveggja ára og þar verði rekið íbúðahótel.

Rotenber er skilgreindur sem hluti af innsta hring leiðtoga í Rússlandi af Bandaríkjastjórn. Hann er sagður æskuvinur og júdófélagi Pútíns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert