Hildur Helgadóttir sem búsett er í Árósum í Danmörku segir mótmælendur hafa kastað sprengjum á lögreglustöðina og víðar í kvöld.
Hildur segir í samtali við mbl.is að sér hafi brugðið verulega þegar hún gekk beint fram á mótmælendur sem enduðu göngu sína nálægt húsi hennar í Árósum.
„Það eru 70 metrar frá íbúðinni minni að götunni þar sem verið var að mótmæla,“ segir Hildur í samtali við mbl.is
Í færslu sinni á Twitter segist hún hafa ætlað út en sér hafi mætt lögreglubílar og Covid-mótmælendaskríll. Núna heyri hún ekkert nema sprengjuhljóð bergmála inn til sín.
Það er ekkert verið að djóka! Búnir að kasta sprengjum í lögreglustöðina og á fleiri staði. Nú heyri ég ekkert nema sprengjuhljóð bergmála inn til mín 😴
— Hildur Helgadóttir (@grildur) January 30, 2021
📸 : Emil Helms/Ritzau Scanpix https://t.co/OPNMlhNpvy pic.twitter.com/9QJ837PQFQ
Samkvæmt danska fréttamiðlinum Stiften er Covid-mótmælendahreyfingin Men in Black á bak við mótmælin og klæðast mótmælendur svörtu.
Hildur segist ekki skilja öfgahópana sem myndast hafa í Danmörku. Allir séu orðnir dauðþreyttir á ástandinu í landinu, sjálf hafi hún verið meira eða minna heima í heilt ár. Stjórnvöld verði þó að fá svigrúm til að vinna úr ástandinu.