Borgarstjóri Amsterdam, Femke Halsema, vill meina erlendum ferðamönnum aðgang að kannabisskaffihúsunum svokölluðu sem borgin er þekkt fyrir, með það fyrir augum að losna við vandamál sem túristum af því tagi geta fylgt.
20 milljónir ferðamanna koma til Amsterdam á ári hverju, en í dag eru þar afar fáir í ljósi veirufaraldursins. Borgarbúar eru margir orðnir langþreyttir á „kannabisstúristum“ og vilja þeirra í stað fleiri ferðamenn sem koma til sögufrægrar borgarinnar til að njóta listar og arkitektúrs.
Bernadette de Wit, íbúi í borginni, vill t.a.m. losna við það sem hún kallar „verðlitla ferðamenn“.
„Þetta er heimili okkar. Þessi borg er á heimsminjaskrá UNESCO. Rembrandt bjó í þessu hverfi!“ segir hún við BBC.
Borgarbúar sjá því margir ferðamannaskortinn, sem nú blasir við, sem tækifæri til breytinga.
Ekki eru þó allir sáttir við þá stefnu, en eigendur kannabisskaffihúsanna sjálfra hafa verið mjög á móti fyrirhuguðum breytingum. Þeir halda því fram að ef ferðamenn mega ekki kaupa kannabis hjá sér verði þeir neyddir til að kaupa það af illþýði á götum úti.