Lögregluyfirvöld í Rússlandi hafa nú handtekið fleiri en fjögur þúsund manns í mótmælum sem haldin eru víðs vegar um landið vegna handtöku stjórnarandstæðingsins Alexei Navalní. Mótmælendur krefjast þess að honum verði sleppt úr haldi.
Þúsundir mótmælenda virtu viðvaranir stjórnvalda að vettugi og gengu frá Vladivostok til Sankti Pétursborgar. Mótmælin hafa staðið yfir í um tvær vikur.
Navalní var handtekinn á flugvelli í Moskvu um miðjan mánuð við komuna til Rússlands frá Þýskalandi, þar sem hann hafði dvalið og fengið læknisþjónustu eftir að eitrað var fyrir honum.
Eiginkona Navalní, Yulia, er sögð hafa verið tekin í hald lögreglu stuttu eftir að hún setti færslu á samfélagsmiðilinn Instagram þar sem hún boðaði komu sína á mótmælafund.
Lögreglan í Moskvu lokaði miðkjarna borgarinnar, í fyrsta skipti í mörg ár, með því að fylla svæðið af lögreglumönnum og loka gönguleiðum.
Rússnesk yfirvöld vöruðu ítrekað við þátttöku í mótmælunum og gáfu það út að þeir sem mótmæltu án leyfis yrðu ákærðir.