Bolsonaro segi af sér eða verði ákærður

AFP

Hundruð manna söfnuðust saman víðs vegar um Brasilíu í dag til að krefjast afsagnar Jair Bolsonaro, forseta landsins, vegna viðbragða hans við kórónuveirufaraldrinum. Bolsonaro hefur ítrekað gert lítið úr Covid-19 og sóttvarnaráðstöfunum.

Rúmlega 223 þúsund hafa látist af völdum Covid-19 í Brasilíu, en aðeins í Bandaríkjunum hafa fleiri látið lífið úr sjúkdómnum.

Mótmælendur kröfðust afsagnar Bolsonaro eða að hann yrði ákærður fyrir embættisafglöp, líkt og bandaríska þingið gerði í tilfelli Donalds Trump. Einn hópur mótmælenda safnaðist saman fyrir utan þinghúsið í Brasilíu með plastpoka fyrir vitum sér sem átti að tákna alla þá sem létu lífið í Amazonas eftir að súrefnisbirgðir sjúkrahúsa kláruðust.

Mótmælendur með skilti þar sem farið er fram á ákæru …
Mótmælendur með skilti þar sem farið er fram á ákæru á hendur Bolsonaro fyrir embættisafglöp. AFP

Gerði lítið úr sjúkdómnum og dreifði villandi upplýsingum

Bolsonaro hefur verið mikið gagnrýndur frá því faraldurinn skall á Brasilíu enda hefur hann gert lítið úr sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur. Hann hefur lýst honum sem „smá flensu“, neitað að bera andlitsgrímu og gert lítið úr notkun þeirra.

Hann gerði einnig lítið úr áhrifum þess að fólk héldi samskiptafjarlægð og dreifði villandi upplýsingum þegar hann lofsamaði virkni lyfsins hýdroxíklórókíns gegn Covid-19. 

Dómstóll í Brasilíu úrskurðaði síðar að forsetanum væri skylt að nota grímu á almannafæri. Bolsonaro hélt því lengi fram að hann gæti ekki veikst alvarlega af veirunni. Hann fór þó í sýnatöku eftir að hafa sýnt einkenni og í ljós kom að hann var sýktur.

Bólusetningar í Brasilíu hófust fyrir tveimur vikum en ganga hægt.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert