ESB harmar stöðuna í Rússlandi

Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins.
Josep Borrell, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins. AFP

Utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, Josep Borrell, lýsti því yfir í dag að hann harmi  „hinar víðtæku handtökur og aflbeitingu umfram tilefni“ gegn mótmælendum og blaðamönnum í Rússlandi. 

Lögreglan í Rússlandi hefur handtekið yfir 4.400 mótmælendur víðs vegar í Rússlandi og lokað hluta af miðbæ Moskvu vegna fjölmennra mótmæla. Þess er krafist að hinn handtekni stjórnarandstæðingur Alexei Navalní verði látinn laus.

Navalní var hand­tek­inn á flug­velli í Moskvu um miðjan mánuð við kom­una til Rúss­lands frá Þýskalandi, þar sem hann hafði dvalið og fengið lækn­isþjón­ustu eft­ir að eitrað var fyr­ir hon­um.

Borrell heimsækir Rússland

„Ég harma víðtækar handtökur og beitingu afls umfram tilefni gegn mótmælendum og blaðamönnum í #Rússlandi enn á ný í dag,“ lýsti Borrell yfir á Twitter reikningi sínum. 

„Fólk verður að fá að nýta rétt sinn til að mótmæla án þess að þurfa að hræðast kúgun. Rússland þarf að fylgja eftir sínum alþjóðlegu skuldbindingum,“ hélt Borrell áfram. 

Fyrir liggur opinber heimsókn Borrells til Moskvu á fimmtudaginn næstkomandi þar sem umræðuefnið á að vera samskipti ESB og Rússlands. Talið er víst að Borrell muni þrýsta á að Navalní verði látinn laus. 

Navalní verður leiddur fyrir dómstóla í næstu viku og gæti átt yfir höfði sér langan fangelsisdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert