Létust í snjóflóði á Jan Mayen

Frá Jan Mayen sem hefur heyrt undir Noreg síðan árið …
Frá Jan Mayen sem hefur heyrt undir Noreg síðan árið 1930. Á myndinni sést Beerenberg, nyrsta virka eldfjall heims, sem er 2.277 metra hátt og gaus síðast árið 1985. Tveir starfsmenn norska hersins létust í snjóflóði á eyjunni í gær, sá þriðji lá fastur undir flóðinu í tvær klukkustundir þar til honum tókst að grafa sig út og gera viðvart. Ljósmynd/Wikipedia.org/Dreizung

Tveir starfsmenn norska hersins biðu bana í snjóflóði á norsku eyjunni Jan Mayen í gær en sá þriðji, sem var á ferð með þeim, lá grafinn undir flóðinu í tvær klukkustundir þar til honum tókst að grafa sig út og gera samstarfsfólki þeirra í herstöðinni aðvart, en hún er í tveggja kílómetra fjarlægð frá staðnum sem snjóflóðið féll á.

Fólkið sem lést, Bjørg Katrine Batalden hjúkrunarfræðingur og Robin Karlsen verkfræðingur, voru borgaralegir starfsmenn hersins og hafa norskir fjölmiðlar birt nöfn þeirra að fengnu samþykki ættingja.

Batalden, sem var frá Florø, starfaði sem hjúkrunarfræðingur við sjúkrahúsið í Førde í Vestland-fylki og var í leyfi þaðan í hálft ár til að gegna starfi hjúkrunarfræðings við herstöðina. Í viðtali við Firdaposten, staðarblaðið í Florø, í október sagði Batalden, sem var 57 ára gömul, að hún hefði þegið starfið á Jan Mayen til að koma sér út úr „þægindasvæðinu“ (n. komfortsonen) um stundarsakir.

„Ákaflega þungbært“

Mjög strangar reglur gilda um ferðir um Jan Mayen vegna snjóflóðahættu og er starfsfólki herstöðvarinnar, sem 18 manns starfrækja yfir vetrartímann, uppálagt að bera VHF-talstöð leggi það leið sína út fyrir stöðvarsvæðið.

Samstarfsfólkið fór þegar á vettvang þegar sá, sem grófst undir flóðinu, komst til stöðvarinnar og gerði aðvart. Hópurinn fann Batalden og Karlsen fljótlega og veitti fyrstu hjálp sem ekki bar árangur.

Jan Mayen er mun nær Íslandi en Noregi og munar …
Jan Mayen er mun nær Íslandi en Noregi og munar þar 350 kílómetrum. Grænland er þó næst, þangað eru 460 kílómetrar frá Jan Mayen. Kort/jan.mayen.no

„Að missa tvo nána samstarfsmenn sem maður hefur umgengist daglega síðan í september er ákaflega þungbært,“ sagði Knut Grandhagen, upplýsingafulltrúi herstöðvarinnar, í samtali við norska ríkisútvarpið NRK í dag. Þriðji maðurinn sem lenti í flóðinu og annað starfsfólk stöðvarinnar hefur notið umönnunar áfallahjálparteymis á meginlandinu gegnum fjarfundabúnað um helgina.

Styttra til Íslands en Noregs

Óvíst er hvenær hægt verður að flytja lík Batalden og Karlsen til Noregs vegna veðurs auk þess sem ryðja þarf flugbrautina á Jan Mayen sem er á kafi í snjó. Eyjan er í 910 kílómetra fjarlægð frá næsta landfasta punkti Noregs og er í raun mun styttra þaðan til Íslands, eða 560 kílómetrar.

Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra og Erna Solberg forsætisráðherra sendu aðstandendum og samstarfsfólki hinna látnu samúðarkveðjur í dag. „Það er með mikilli sorg sem ég hef tekið við skilaboðum um andlát tveggja starfsmanna herstöðvarinnar á Jan Mayen síðdegis á laugardag,“ skrifaði forsætisráðherra á Twitter, „hugur minn er hjá aðstandendum, vinum, samstarfsfólki og félagsskapnum trausta á Jan Mayen.“

NRK

VG

Bergens Tidende

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert