Europol varar við sölu falskra vottorða

Brasilískur hjúkrunarfræðingur með vottorð fyrir bólusetningu. Europol varar við því …
Brasilískur hjúkrunarfræðingur með vottorð fyrir bólusetningu. Europol varar við því að glæpamenn nýti sér ferðabönn vegna kórónuveirufaraldursins og selji fölsuð vottorð. AFP

Meðan á ferðatakmörkunum stendur vegna faraldursins er mjög líklegt að glæpamenn muni grípa tækifærið og framleiða og selja fölsk kórónuveiruvottorð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Europol.

Þar segir að þegar hafi komist upp um nokkurn fjölda atvika þar sem glæpamenn reyndu að græða á farþegum með sölu falskra vottorða, og eru þrjú slík dæmi talin upp: Fölsunarhringur var gripinn við að selja neikvæð sýnatökuvottorð á Charles de Gaulle-flugvellinum í París í Frakklandi, í Bretlandi voru svikahrappar gripnir við að selja neikvæð vottorð fyrir 100 sterlingspund og í desember 2020 handtók spænska lögreglan svikahrappa fyrir að selja vottorð á 40 evrur.

Þá hefur Europol upplýsingar um að skipulagði glæpahópurinn Rathkeale Rovers Mobile hafi hannað farsímaforrit þar sem liðsmenn hans geta falsað vottorð handvirkt.

Vegna góðs aðgengis að tæknilausnum á borð við hágæðaprentara og mismunandi hugbúnað geti svikahrappar framleitt fölsuð vottorð í góðum gæðum.

Aðildarríki eru beðin að deila upplýsingum sem þau hafa um glæpsamleg atvik tengd fölskum vottorðum tengdum kórónuveirufaraldrinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert