Að minnsta kosti fimm manns eru sárir eftir það sem talið er vera skotárás í Västra Sandgatan í Söder-hverfinu í Helsingjaborg á Skáni í Suður-Svíþjóð upp úr klukkan 20 í kvöld að skandinavískum tíma, 19 að íslenskum.
Að sögn Evelina Olsson, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, sem ræddi við sænska dagblaðið Aftonbladet nú fyrir skömmu, hafa tveir hinna sáru verið færðir á sjúkrahús, en lögregla getur ekki staðfest, enn sem komið er, að áverkar þeirra séu skotsár. Hinir þrír komu sér sjálfir á sjúkrahús og er lögregla einnig með viðbúnað þar.
„Við höfum stöðvað alla umferð að sjúkrahúsinu til að tryggja öryggi starfsfólksins ef til árásar þar skyldi koma,“ segir Olsson upplýsingafulltrúi.
Tilkynnt var um skothvelli í Västra Sandgatan og fór lögregla þá þegar á vettvang. Þar hafði þá orðið árekstur sem lögregla telur tengjast skothvellunum, að sögn sænska ríkisútvarpsins SVT. Lögreglan leitar nú árásarmannsins eða -mannanna og nýtur aðstoðar þyrlu við leitina.
Uppfært klukkan 22:01:
Lögreglan í Helsingjaborg greindi frá því rétt í þessu, að fimmmenningarnir, sem nú njóta aðhlynningar á sjúkrahúsi eftir árásina eru allt karlmenn á aldrinum 30 til 40 ára. Allir fimm bera áverka eftir stungur eða skurði af völdum eggvopns eða -vopna auk þess sem einn þeirra hefur orðið fyrir skoti eða skotum. Lögregla yfirheyrir nú fjölda vitna í Söder-hverfinu og leitar árásarmannsins eða -mannanna, en sem fyrr segir hefur enginn verið handtekinn vegna málsins enn sem komið er.