Fjögur, kona og þrír karlmenn, létust í snjóflóðum í Tíról í Austurríki um helgina, að því er lögreglan á svæðinu greindi frá í dag. Skíðasvæði í Austurríki hafa verið opin þrátt fyrir að þriðja útgöngubannið þar í landi sé nú í gildi vegna kórónuveirufaraldursins. Ástæðan er sú að stjórnvöld í Austurríki telja litlar líkur á smitum við íþróttaiðkun utandyra.
Yfirvöld í Tíról vöruðu þó við því á fimmtudag að hætta væri á snjóflóðum vegna mikillar ofankomu, vinds og breytinga á hitastigi.
37 ára gamall maður og 38 ára gömul kona, sem bæði eru frá Tíról, „komu af stað snjóflóði í 2.100 metra hæð“, segir í yfirlýsingu lögreglu vegna málsins. „Þau grófust bæði undir flóðinu og ekki var hægt að endurheimta líkamsleifar þeirra að kvöldi 31. janúar.“
Á laugardag var andlát 16 ára gamals þýsks stráks á Kuehtai-skíðasvæðinu í Tíról tilkynnt. Hann hafði skíðað utan brautar í meira en 2.600 metra hæð þegar hann lenti í snjóflóði.
Þá lést 48 ára gamall Austurríkismaður í snjóflóði nærri Axamer Lizum-svæðinu.
Fjögur önnur snjóflóð voru einnig tilkynnt á laugardag en þau ollu engum dauðsföllum.
Á síðustu árum hafa um 20 manns fallið frá að meðaltali vegna snjóflóða. Færri, eða 13, féllu frá vegna þeirra í fyrra, líklega vegna þess að skíðatímabilið var styttra sökum kórónuveirufaraldursins.