Senda mannskap og tæki til Portúgal

Dauðföllum hefur fjölgað gríðarlega í Portúgal sl. vikur.
Dauðföllum hefur fjölgað gríðarlega í Portúgal sl. vikur. AFP

Vegna slæmrar stöðu í heilbrigðiskerfinu í Portúgal hefur ríkisstjórn Þýskalands ákveðið að senda læknismenntað starfsfólk, sjúkrarúm, öndunarvélar og önnur tæki svo sjúkrahús geti tekið á móti fleiri Covid-sjúklingum. Veldisvöxtur kórónuveirusmita í Portúgal er sá mesti í heiminum núna.

Sjúkrahús í Portúgal eru flest hver yfirfull af sjúklingum og þurfa sjúkrabílar sem flytja Covid-sjúklinga að bíða í röðum fyrir utan þangað til hægt er að taka á móti fólki. Ríkisstjórnin þar í landi kynnti hertar sóttvarnaaðgerðir núna um helgina til að reyna ná tökum á fjölgun smita. Hlutfall dauðsfalla síðastliðnar tvær vikur er það hæsta í heiminum.

Til að bregðast við ástandinu hafa Þjóðverjar ákveðið að aðstoða og munu senda 150 sjúkrarúm, 50 öndunarvélar og 150 önnur tæki til Lissabon. Þar að auki verða 26 heilbrigðisstarfsmenn sendir til að aðstoða í að minnsta kosti þrjár vikur.

Breska afbrigðið og tilslakanir yfir jólin

Í dag, mánudaginn 1. febrúar, voru 856 sjúklingar færðir á gjörgæsludeild og að minnsta kosti 275 létust af völdum Covid-19. Forsætisráðherra Portúgal, Antonio Costa, sagði í síðustu viku að veldisvöxtinn mætti rekja til meira smitandi afbrigðis veirunnar, sem kennt hefur verið við Bretland, og þess að slakað var á takmörkunum yfir jólahátíðina.

„Ef við hefðum vitað af breska afbrigðinu fyrr, þá hefðum við svo sannarlega gert hlutina öðruvísi yfir jólin,“ sagði Costa.

„Ástandið er gríðarlega slæmt. Á svona tímum er samstaða í Evrópu ómetanleg,“ sagði Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands, um ákvörðunina sem var tekin eftir að ríkisstjórn Portúgal óskaði formlega eftir aðstoð þann 25. janúar.

Sjúkrabílar bíða í röðum fyrir utan sjúkrahús vegna skorts á …
Sjúkrabílar bíða í röðum fyrir utan sjúkrahús vegna skorts á sjúkrarúmum og starfsfólki. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka