Umhverfissinni flýgur um á einkaþotu

John Kerry.
John Kerry. AFP

Í ljós hefur komið að sérstakur sendifulltrúi Bandaríkjanna í umhverfismálum, John Kerry, er með einkaþotu í sinni eigu. Fjölskylda Kerrys hefur um árabil ferðast um á einkaþotu, en hann hefur lengi reynt að vekja athygli á hættunni sem stafar af loftslagsbreytingum. Fox News greinir frá. 

Það hefur aldrei verið opinbert að Kerry sé með einkaþotu í sinni eigu, en öldungadeildarþingmaðurinn var eitt sinn forsetaframbjóðandi demókrata og síðar utanríkisráðherra. Hann gegnir nú, eins og fyrr segir, embætti sérstaks sendifulltrúa Bandaríkjanna í umhverfismálum. Málið er því hið vandræðalegasta. 

Í gögnum flugmálayfirvalda vestanhafs kemur fram að hann eigi einkaþotu sem hlutfallslega eyðir um fjörutíufalt meira eldsneyti en hefðbundin farþegaþota. Einkaþotan var áður í eigu fyrirtækisins Heinz. 

Gögnin sýna jafnframt að Kerry hefur ferðast mikið um borð í vélinni, en greiðslur sem hann hefur innt af hendi benda til þess. Forsetaframbjóðandinn fyrrverandi vildi ekki tjá sig þegar þess var óskað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert