Allt á suðupunkti í Rússlandi

AFP

Yfir 10.000 mótmælendur voru handteknir í gær af rússnesku lögreglunni en þeir mótmæltu fangelsisdómi yfir Alexei Navalní, einum helsta stjórnarandstæðingi landsins. 

Ákvörðun dómara um að breyta skilorðsbundinni refsingu frá árinu 2014 í fangelsisvist vakti hörð viðbrögð víða um heim. 

Bresk, frönsk, þýsk og bandarísk stjórnvöld ásamt Evrópusambandinu hafa fordæmt niðurstöðuna og krefjast þess að Navalní verði látinn strax laus. Á sama tíma saka stjórnvöld í Rússlandi vestræn ríki um afskipti af innanlandsmálum.

AFP

Í nótt var búið að handtaka 1.408 einstaklinga víðs vegar um Rússland, flestir þeirra í Moskvu og Pétursborg, samkvæmt upplýsingum frá OVD-Info-samtökunum. Margir þeirra voru handteknir áður en dómurinn var kveðinn upp í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð þar sem yfir 10 þúsund höfðu verið handteknir, ekki rúmlega 1.400 eins og áður hafði komið fram.

Dómarinn, Natalía Repnikova, breytti þriggja og hálfs árs skilorðsbundinni refsingu yfir Navalní fyrir fjársvik í tveggja ára og sex mánaða fangelsi. Hann var sakaður um að hafa rofið skilorð með því að hafa virt að vettugi kröfu um að hitta skilorðseftirlitsmann. Navalní var handtekinn við komuna til Moskvu 17. janúar frá Þýskalandi. Þar dvaldi hann mánuðum saman eftir að hafa verið fluttur þangað eftir að eitrað var fyrir honum. 

AFP

Navalní benti á það fyrir dómi að það hefði verið lífsins ómögulegt að mæta á fundi með skilorðseftirlitsmanninum þegar hann var í Þýskalandi en dómarinn sagði að hann hefði ekki heldur mætt á fundina áður en eitrað var fyrir honum. 

Navalní var hafður í stofufangelsi eftir að dómurinn féll árið 2014 en dómurinn var fordæmdur af Mannréttindadómstól Evrópu á sínum tíma. Repnikova sagði fyrir dómi í gær að sá tími yrði dreginn frá refsingunni. 

Verjandi Navalnís, Olga Mikhailova, segir að Navalní sé gert að sitja í fangelsi í tvö ár og átta mánuðir en í gær var talað um tvö og hálft ár. Dómnum verði áfrýjað en Navalní verður í haldi þangað til því ferli ljúki. 

AFP

Navalní flutti eldheita ræðu í réttarsalnum í gær og sakaði þar Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að reyna að þagga niður í gagnrýnendum sínum. „Þeir setja eina manneskju á bak við lás og slá til að hræða milljónir,“ sagði Navalní meðal annars. 

Hann hæddist einnig að Pútín með því að segja að Novichok-taugaeitrið sem var notað til að eitra fyrir honum hafi verið komið fyrir í nærbrókum hans. Sagði Navalní að Pútín verði minnst sem nærbuxnaeiturbyrlarans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert