Flúði fótgangandi yfir fjöllin

AFP

Bresk-íranskur fræðimaður sem átti yfir höfði sér níu ára fangelsisvist í Íran flúði fótgangandi yfir fjalllend landamærin til að öðlast nýtt líf í Bretlandi.

Kameel Ahmady var dæmdur fyrir samstarf með óvinveittum stjórnvöldum fyrir tveimur mánuðum. Hann neitar sök og ákvað að flýja land þar sem hann var laus gegn tryggingu. Ahmady flúði undan byltingarvörðum Írans með því að fara yfir landamærin í fjöllunum. 

Ahmady, sem er fæddur í héraði Kúrda í vesturhluta Írans, flutti til Bretlands þegar hann var 18 ára. Þar nam hann við University of Kent og London School of Economics. Áður en hann sneri aftur til Írans sem mannfræðingur sótti hann um breskan ríkisborgararétt.

Rannsóknir hans beinast að barnahjónaböndum og kynfæralimlestingum kvenna í Íran. Stjórnvöld beindu sjónum að honum vegna rannsókna hans en hann hefur barist fyrir því að breyta lögum sem heimila að stúlkur gangi í hjónaband 13 ára. 

Í ágúst 2019 réðust 16 félagar í byltingarvörðunum inn á heimili hans og handtóku hann.  Ahmady var fluttur í Evin-fangelsið en hann segir að ein ástæðan fyrir handtökunni hafi verið tvöfaldur ríkisborgararéttur hans.

Hann hafi haft ýmislegt annað á móti sér: Hann er Kúrdi, bakgrunnur hans er súnní á meðan meirihluti Írana eru síja-múslímar. Eins að hann sé fræðimaður sem rannsakar viðkvæman málaflokk. 

Í samtali við BBC lýsir hann vistinni í fangelsi en þar var hann í þrjá mánuði. Síðan var hann laus gegn tryggingu en í desember var hann dæmdur fyrir samstarf við óvinveitt ríki. Ákæran byggði á sjálfboðaliðastarfi sem hann hafði unnið á sínum tíma fyrir góðgerðarsamtök sem hafa einu sinni fengið fjármagn frá Bandaríkjunum. Hann var einnig ákærður fyrri að hvetja til samkynhneigðar í rannsóknum sínum. 

Ahmady var dæmdur í rúmlega níu ára fangelsi og gert að greiða sekt upp á rúmlega 500 þúsund pund, 88,6 milljónir króna. Eftir að hafa verið synjað um áfrýjun ákvað hann að flýja. Hann gat ekki hugsað sér að sitja í fangelsi í tíu ár og geta ekki fylgst með syni sínum vaxa úr grasi. 

„Ég fór einfaldlega. Ég pakkaði rakáhöldum, nokkrum bókum og fartölvu í poka. Eins hlýjum fötum því ég vissi að ég yrði að laumast út úr lestinni uppi í fjöllunum,“ segir hann í viðtali við BBC en þar lýsir hann tilfinningunni að yfirgefa fjölskylduna, vinnuna og allt sem hann elskaði. 

Viðtalið í heild á BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka