Fjögur dæmd fyrir að undirbúa árás

AFP

Íranskur sendierindreki var í dag dæmdur í 20 ára fangelsi í Belgíu fyrir að undirbúa sprengjutilræði í úthverfi Parísar árið 2018.

Assadollah Assadi, sem er 49 gamall, var í sendinefnd Írans í Austurríki þegar hann útvegaði sprengiefni sem nota átti við árásina. Hann var handtekinn í Þýskalandi í júlí 2018 eftir að komið var í veg fyrir árásina.

Þrír vitorðsmenn hans voru dæmdir í 15 til 18 ára fangelsi fyrir aðild að árásinni og allir sviptir belgískum ríkisborgararétti en þeir voru allir með tvöfalt ríkisfang.

Til stóð að gera árás á fund í Villepinte, skammt fyrir utan París, 30. júní 2018 en þar komu saman háttsettir einstaklingar Þjóðarand­spyrnuráðs Írans (NCRI) sem eru í útlegð og stuðningsmenn NCRI. Þeirra á meðal Rudy Giuliani sem í dag er þekktastur fyrir störf sín í þágu Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna. 

Assadi var dæmdur fyrir tilraun til manndráps í með hryðjuverki og aðild að hryðjuverkasamtökum. Hjónin Nasimeh Naami og Amir Saadouni, sem tóku við sprengiefninu frá Assadi voru dæmt í 18 og 15 ára fangelsi. Ljóðskáldið Mehrdad Arefani var dæmdur í 17 ára fangelsi en hann undirbjó árásina með Assadi.

Belgíska lögreglan stöðvaði för bifreiðar hjónanna sama dag og gera átti árásina en þau voru með sprengjuna í bílnum. Frönsk yfirvöld hafa sakað írönsk yfirvöld að hafa staðið á bak við tilræðið en þau neita því.

NCRI er pólitískur armur Mujahedeen-e-Khalq (MEK) en MEK stóð með Ruhollah Khomeini æðstaklerki í byltingunni 1979 en fljótlega eftir valdaránið féllu samtökin í ónáð nýrra yfirvalda. MEK stóð með Írak í stríði Íraks og Íran á níunda áratugnum og voru þúsundir félaga samtakanna teknir af lífi þegar yfirvöld í Íran gerðu atlögu að félögum MEK.

Barátta samtakanna fer nú fram erlendis og telja þau sig vera helsta stjórnarandstæðing landsins. Samtökin eru af mörgum álitin hryðjuverkasamtök. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka