Mörkin sett við 65 ára í Noregi

AFP

Norsk yfirvöld hafa ákveðið að bólusetja ekki 65 ára og eldri með AstraZeneca-bóluefninu við Covid-19. Forstjóri Lýðheilsustofnunar Noregs (FHI), Camilla Stoltenberg, greindi frá þessu á blaðamannafundi í morgun. Hið sama hafa yfirvöld í Svíþjóð, Þýskalandi og Frakklandi ákveðið að gera segir í frétt norska ríkisútvarpsins.

RÚV greindi frá því í morgun að íslensk stjórnvöld taki ákvörðun í dag um hvort 65 ára og eldri fái bóluefnið frá AstraZeneca hér á landi og tilkynnt verði um ákvörðunina á upplýsingafundi almannavarna og embættis landlæknis klukkan 11.

Að sögn Söru Vatle, læknis hjá FHI, er óljóst um virkni bóluefnisins á aldurshópinn 55-65 ára þar sem svo fáir í þeim aldurshópi hafi tekið þátt í rannsókninni. Aftur á móti bendir allt til þess að virknin sé svipuð og hjá yngra fólki. 

Í gær ákvað Lyfjastofnun Sviss að veita AstraZeneca ekki markaðsleyfi strax þar sem ekki séu fyrirliggjandi nægjanlegar upplýsingar varðandi áhættuþætti. 

Samkvæmt NRK munu Norðmenn fá 193 þúsund skammta af bóluefni AstraZeneca í febrúar í stað 1,12 milljóna skammta eins og til stóð. Aftur á móti hefur þeim skömmtum sem Norðmenn fá frá Pfizer fjölgað.

Í Svíþjóð var tilkynnt um breytta röðun forgangshópa í morgun. Þar eru nú allir landsmenn 65 ára og eldri en áður var miðað við 70 ára. Búið er að bólusetja um 250 þúsund manns í Svíþjóð og von er á 2,2 milljónum skammta til viðbótar af bóluefni í febrúar og mars.

Frétt SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert